Viðskipti innlent

Sigurður G. eignast hlut í Pressunni

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Þorsteinn Guðnason og Sigurður G. Guðjónsson fyrir stjórnarfund DV í haust.
Þorsteinn Guðnason og Sigurður G. Guðjónsson fyrir stjórnarfund DV í haust. Vísir/Anton
Sigurður G. Guðjónsson hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi forstjóri Norðurljósa, sem rak meðal annars Bylgjuna og Stöð 2 á sínum tíma, hefur keypt 10 prósenta hlut í fjölmiðlafyrirtækinu Pressunni. Frá þessu er greint á heimasíðu fyrirtækisins. Þá hefur Jón Óttar Ragnarsson, stofnandi Stöðvar 2, keypt 11 prósenta hlut í félaginu.

Fram kemur að um sé að ræða nýtt hlutafé sem gefið var út í tilefni af kaupum félagsins á stærstum hluta hlutafjár í DV ehf. Aðrir eigendur Pressunnar eru Björn Ingi Hrafnsson, Argnar Ægisson og AB11 ehf.

„Fleiri aðilar eru þessa dagana að bætast við í hlutahafahóp Pressunnar og verður gerð nánari grein fyrir þeim næstu daga. Um leið verður uppfærður hlutahafalisti í Pressunni ehf og DV ehf sendur til Fjölmiðlanefndar, eins og lög gera ráð fyrir.“

Sigurður segir að um spennandi tækifæri sé að ræða. Hann þekki fjölmiðlarekstur vel. Sigurður var áberandi í baráttunni um eignarhald DV í haust sem lauk með yfirtöku Þorsteins Guðnasonar og annarra fjárfesta. Fyrsta verk nýrra fjárfesta var að segja upp Reyni Traustasyni, þáverandi ritstjóra DV.

Pressan ehf er móðurfélag Vefpressunnar sem rekur vefmiðlana Pressuna, Eyjuna og Bleikt. Um er að ræða sjötta mest lesna vef landsins samkvæmt samræmdi vefmælingu Modernus.

Uppfært klukkan 12:10

Jón Óttar Ragnarsson, stofnandi Stöðvar 2, hefur fest kaup á 11 prósenta hlut í Pressunni.


Tengdar fréttir

Björn Ingi kaupir DV

Reiknað er með að gengið verði frá kaupunum í dag eftir nokkurra vikna viðræður.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×