Körfubolti

Svali í Madison Square Garden: Hingað vilja allir komast

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar

Svali Björgvinsson fylgdist með þegar þeir Martin Hermannsson og Elvar Friðriksson léku með háskólaliði sínu, LIU, í hinni frægu íþróttahöll Madison Square Garden á dögunum.

LIU tapaði leiknum en fáir íslenskir íþróttakappar hafa spilað í þessari höll en eins og Svali benti sjálfur á í fréttinni gerði Pétur Guðmundsson það í tvígang er hann lék í NBA-deildinni.

„Það er ekki nóg að fara bara fram hjá einum leikmanni til að komast í galopið lay up eins og í deildinni heima,“ sagði Martin við Svala. „Það er ekkert gefið í þessu. Ef þú færð galopið skot þá er það bara kraftaverk.“

Elvar tók í svipaðan streng og sagði að þó svo að leikurinn virtist hægur þá væru leikmenn hraðari en gengur og gerist í íslensku deildinni.

„Mér finnst að ég og Martin megum vera áræðnari í sóknarleiknum. Við erum enn að finna okkur og það kemur með tímanum.“

„En þetta er allt öðruvísi. Skotklukkan er lengri og [þjálfarinn] kallar kerfin fyrir mann sem mér finnst hægja aðeins á leiknum. En samt finnst mér þetta hraðari en heima - þar var með hraðari leikmönnum en hér er maður með þeim hægari,“ sagði Elvar.

Sérstakur þáttur um þá Martin og Elvar verður sýndur á Stöð 2 Sport á jóladag en í niðurlagi fréttarinnar hafði Svali orð á því hversu magnað það væri að fá að spila í Madison Square Garden í hjarta New York-borgar.

„Hér komast 20 þúsund manns fyrir. Hér gerast allir stóru hlutirnir. Ef fólk á gítar eða stuttbuxur og góða körfuboltaskó þá vilja allir vera hérna.“Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.