Innlent

„Þeir frömdu morð - sálarmorð“

Samúel Karl Ólason skrifar
„Ég er óendanlega þakklát fyrir að vera að vinna svona ung í mínum málum og mér finnst það forréttindi því að margir gera þetta ekki fyrr en þeir eru orðnir mikið eldri.“
„Ég er óendanlega þakklát fyrir að vera að vinna svona ung í mínum málum og mér finnst það forréttindi því að margir gera þetta ekki fyrr en þeir eru orðnir mikið eldri.“ Vísir/Getty
„Núna langar mig að vekja athygli á afleiðingum kynferðisofbeldis. Ég tala um kynferðislegt ofbeldi því það er reynsla sem ég get talað út frá og byggt mína frásögn á.“ Þetta skrifar Þuríður Anna Sigurðardóttir í grein á Vísi. Tilefni skrifa hennar er 16 daga átak gegn kynbundnu ofbeldi.

Í grein sinni segir Þuríður að allir viti að nauðgun sé hræðilegur hlutur. Hún hafi þrisvar sinnum orðið fyrir kynferðislegri misnotkun. Fyrst var hún átta ára gömul, svo fimmtán og sextán. Fyrir tæpu ári síðan skrifaði hún grein þar sem hún segir opinskátt frá því ofbeldi og að hún sé loksins hætt að skammast sín.

Þegar hún var barn var hún misnotuð af frænda sínum og Þuríður segist ekki vita hvernig hlutirnir hefðu farið, ef það hefði ekki gerst. Hún viti þó að hún hafi aldrei átt strákavini. Í efri bekkjum grunnskóla leyfði hún strákum óspart að gera grín að sér og þorði aldrei að hallmæla þeim. Þess í stað hafi hún hlegið með.





Þuríður Anna Sigurðardóttir
Vildi viðurkenningu

„Ég vildi ekkert frekar en að fá viðurkenningu frá karlkyninu þannig að ég leyfði þeim að niðurlægja mig á allskyns máta. Ég taldi að þetta væri rétta leiðin til að fá viðurkenningu frá strákum, leyfa þeim að stjórna mér og niðurlægja mig.“

Þá hafi einu skiptin sem hún þorði að tala við stráka þegar á framhaldsskólaárin kom verið undir áhrifum áfengis.

„Ég píndi mig til þess að gera það, ég píndi líkamann minn, en ég gat það ekki edrú, þarna deyfði ég allar tilfinningar mínar með áfengi. Í dag er ég mjög fegin að ég leiddist ekki út í frekari óreglu því ég tók mörg ár í að misnota áfengi og var komin í vafasaman félagsskap á fyrsta árinu mínu í framhaldsskóla.“

Eftir fyrsta árið fór Þuríður til Ítalíu í skiptinám og telur hún það hafa bjargað sér.

Heljarinnar ferðalag

Í byrjun unglingsáranna þróaði Þuríður með sér átröskun. Hún segist ekki hafa borðað neitt nema það teldist hollt og ekki leyft sér neitt. Með því að borða „ekki neitt“ missti hún 15 kíló á hálfu ári og það fyrsta sem hún gerði á hverjum morgni var að klípa í „fituna“. Þetta segir Þuríður hafa snúist um að hún hafi þurft að hafa stjórn á einhverju, þar sem hún hafi ekki getað haft stjórn á kynferðisofbeldinu né tilfinningum sínum.

„Mér leið alltaf eins og ég væri við stjórn en sé núna að þetta var besta vin- og óvinkona mín sem að stjórnaði mér, fröken stjórnsemi.“

Samhliða átröskuninni segist Þuríður hafa þróað með sér magasjúkdóm. Að henni sé alltaf illt í maganum og sé búin að þurfa að læra mikið inn á magann og hvaða mat hún þoli.

„Þetta er búið að vera heljarinnar ferðalag sem hefur endað upp á sjúkrahúsi, í öllum speglunum sem völ er á, grátköstum, krampaköstum, krónískum niðurgangi og harðlífi. Ég get ekkert annað gert en að sætta mig við þetta.“

Hvað ef?

Þuríður þróaði einnig með sér „fóbíur“ og telur hún það vera algengan fylgikvilla ofbeldis. Þá segist hún meðal annars þjást af kvíðaröskun, innilokunarkennd, hnífafóbíu og ýmsu öðru.

„Orðin „hvað ef” voru orðin daglegur partur af mér. Trúið mér það er mjög erfitt að lifa svona, þegar kvíðinn heltekur líf þitt og þú hefur ekki stjórn á þessum blessuðu hugsunum þínum. Einu sinni hringdi ég grátandi í föður minn og sagði „hvað ef að ég gerist allt í einu hryðjuverkamaður og bý til sprengju?”“

Þuríður hefur verið í meðferð hjá sálfræðingum en eftir einhvern tíma hafi hún stungið upp á áfalla- og streituröskunarmeðferð.

„Það var fyrst í þessari meðferð sem kvíðinn fór að lagast, því þá var ég í fyrsta sinn að vinna með rótina að vandanum. Því kvíðinn var ekki stærsta vandamálið, kvíðinn var einungis afleiðing af ofbeldinu. Eftir að hafa byrjað að vinna í ofbeldinu, sem er það erfiðasta sem að ég hef gert, þá byrjaði ég hægt og rólega að finna sjálfa mig aftur.“

Kynlíf eitthvað sem hún átti að gefa

Nú segist Þuríður vera byrjuð að tengjast líkama sínum aftur og sé farin að skilja tilfinningar sínar betur. Þá segist hún aldrei hafa upplifað kynlíf eins og hún hafi heyrt að ástföngin pör upplifi kynlíf. Það hafi verið eitthvað sem henni fannst hún eiga að gefa. Hún hafi skuldað hinni manneskjunni það.

„Ég vona að með tíma og sjálfsskoðun geti ég upplifað fallegt kynlíf en þetta er réttur minn sem að gerendurnir tóku af mér.“

Þuríður kærði eina nauðgun, en segist ekki hafa þorað að kæra hina þar sem hún hafi skammast sín svo mikið. Dómur féll í því máli og hlaut gerandinn dóm fyrir að troða bolta upp í leggöng hennar á meðan þau stunduðu kynlíf.

„Þetta atvik hafði að sjálfsögðu líkamlegar afleiðingar í för með sér og í kjölfarið fékk ég mikla sýkingu og bý við þann möguleika í dag að vera jafnvel ófrjó.“

Sá fékk skilorðsbundinn dóm og Þuríður fékk bætur, sem hún segir sig skipta engu máli. Þó hafi þetta verið lítil upphæð miðað við allt sem hún hafi gengið í gegnum.

„Ég veit að ég er „heppin“ að hafa unnið mitt mál því flest kynferðisafbrot komast ekki í gegnum þetta kerfi, og því spyr ég – hvað er að þessu kerfi? Þuríður spyr hvort ekki sé kominn tími til að breyta kerfinu.

„Allt þetta sem að ég hef skrifað fyrir ofan, allt sem að gerendur mínir hafa tekið af mér. Þeir misnotuðu ekki „bara“ líkamann minn, þeir frömdu morð – sálarmorð.“

„Varstu ekki bara of drukkin?“

Þuríður vill einnig koma á framfæri þeim viðbrögðum sem hún fékk þegar hún fór til lögreglunnar á Akureyri.

„Þá var ég 16 ára stúlka að sýna mikið hugrekki að koma og kæra að það hefði verið brotið harkalega á mér þegar að lögreglumaðurinn segir þessa klassísku setningu „varstu ekki bara of drukkin?” Hverjum dettur í hug að segja þetta við barn sem var að kæra mjög gróft kynferðisbrot?“

Þuríður segist hafa í mörg ár lifað lífið af en ekki lifað lífinu. Þar sé stór munur á. Nú sé hún á góðum stað og hafi aldrei verið í jafn miklu jafnvægi og nú.

„Ég er óendanlega þakklát fyrir að vera að vinna svona ung í mínum málum og mér finnst það forréttindi því að margir gera þetta ekki fyrr en þeir eru orðnir mikið eldri. Mér finnst ég hafa endurheimt líf mitt tilbaka en það hefur kostað óendanlega mikla sjálfsvinnu.“

Þuríður hefur farið til Aflsins, samtaka gegn kynferðis- og heimilisofbeldi, síðan í sumar og hún sé þeim óendanlega þakklát.

„Ég er svo óendanlega þakklát fyrir að Aflið sé til en mér finnst mjög sorglegt að að sé ekki meiri peningur settur í stofnun eins og Aflið. Þetta eru samtök sem að eru að gera frábæra hluti fyrir fólkið í samfélaginu sem að við lifum í.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×