Erlent

328 manns í Bandaríkjunum heita Abcde

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
Flestar stúlkur sem bera nafnið forvitnilega eru fæddar árið 2009.
Flestar stúlkur sem bera nafnið forvitnilega eru fæddar árið 2009.
Frétt bandaríska miðilsins CNN um stúlku sem heitir Abcde Santos vakti þó nokkra athygli í vikunni. Stúlkan vildi fá að hitta jólasvein í verslunarmiðstöð í Kaliforníu og beið eftir honum í hálftíma, en með henni var hundurinn hennar Pup-Cake sem er henni til aðstoðar í daglegu lífi. Þegar röðin var komin að Abcde og Pup-Cake sagðist jólasveinninn ekki vilja tala við stúlkuna, því hann væri svo hræddur við hundinn. Fjölskylda Abcde sagðist þá ætla að passa hundinn á meðan stúlkan talaði við jólasveininn.

Það dugði ekki, sveinninn vildi ekki tala við stúlkuna og kvartaði fjölskylda hennar í kjölfarið. Var jólasveinninn rekinn úr sínu starfi frá verslunarmiðstöðinni.

Eftir að fréttin fór á flug fóru blaðamenn miðilsins Vocactiv að grennslast fyrir um þetta forvitnilega skírnarnafn stúlkunnar. Vocactiv er eins árs gamall vefmiðill sem er meðal annars í samstarfi við fréttastofu NBC. Blaðamönnum miðilsins þótti forvitnilegt að nafn stúlkunnar væru fyrstu fimm stafirnir í stafrófinu.

Í ljós kom að alls eru 328 manns skráðir með þetta nafn. Nafnið er yfirleitt borið fram Ab-sí-dí og er mesta áherslan lög á fyrsta atkvæði nafnsins. Meðalaldur stúlkna sem bera þetta forvitnilega nafn er sjö og hálft ár. Elsta stúlkan sem ber nafnið er 24 ára gömul. Flest börn voru skírð þessu nafni árið 2009, alls 32 börn.

Nafnið virðist eiga rætur sínar að rekja til Hawaii, en fyrstu fimm stúlkurnar sem voru nefndar Abcde eru frá Hawaii. Þykir það sérstaklega athyglisvert í ljósi þess að Havaíska stafrófið inniheldur ekki samhljóða sem líkjast b,c eða d. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×