Erlent

Óeirðir brutust út við minningarathöfn

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
vísir/afp
Heiftugar óeirðir brutust út í Grikklandi í dag þegar þúsundir Grikkja fylktu liði niður stræti Aþenu til að minnast fimmtán ára pilts sem skotinn var til bana af lögreglu 6.desember 2008.

Mótmælendurnir eyðilögðu búðarglugga, kveiktu elda og fleygðu heimatilbúnum bensínsprengjum um stræti borgarinnar og í lögreglu. Lögregla notaði táragas til að dreifa mannfjöldanum, en yfir fimm þúsund manns tóku þátt í mótmælunum og gekk erfiðlega að róa fólkið niður. Mótmælin voru einnig haldin til að sýna 21 árs fanga samstöðu, en sá hefur verið í hungurverkfalli í rúmar þrjár vikur. Hann var dæmdur í 15 ára fangelsi í október en hann krefst þess að fá að stunda háskólanám í fangelsinu. Hann hins vegar fær ekki leyfi til þess frá yfirvöldum og telja mótmælendur það dæmi slæma meðferð á almennum borgurum. Yfir tuttugu manns voru handteknir í átökunum.

Mótmælendur köstuðu bensínsprengjum í lögreglu.vísir/afp
Pilturinn sem um ræðir var árið 2008 skotinn fyrir að því er virðist litlar sakir, en lögregluþjóninn sem ber ábyrgð á dauða hans var árið 2010 dæmdur í ævilangt fangelsi. Lát piltsins varð til þess að miklar óeirðir brutust út víða um Grikkland og stóðu þær linnulítið yfir í tvær vikur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×