Körfubolti

Keflavíkurkonur fá góða heimsókn í janúar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jennifer Boucek fagnar hér sigri með Keflavíkurliðinu. Með henni á myndinni eru Erla Þorsteinsdóttir og Erla Reynisdóttir.
Jennifer Boucek fagnar hér sigri með Keflavíkurliðinu. Með henni á myndinni eru Erla Þorsteinsdóttir og Erla Reynisdóttir. Vísir/Brynjar Gauti
Jennifer Boucek, fyrrum aðalþjálfari og núverandi aðstoðarþjálfari í WNBA-deildinni í körfubolta, er á leiðinni til Íslands og mun stýra æfingabúðum í Keflavík í janúar.

Æfingabúðirnar eru fyrir stúlkur fæddar árið 2006 eða fyrr en það er Kvennaráð Keflavíkur sem stendur fyrir komu Jenny Boucek aftur til Íslands. Flestar þeirra ef ekki allar spiluðu með Boucek á sínum tíma.

Jenny Boucek átti flottan feril og spilaði meðal annars á fyrsta tímabilinu í WNBA-deildinni áður en hún kom til Íslands tímabilið 1997 til 1998 þar sem hún tapaði varla leik í búningi Keflavíkurliðsins. Boucek var frábær varnarmaður og mikill leiðtogi á velli.

Boucek hjálpaði þá Keflavík að vinna tvöfalt. Hún var með 18,2 stig og 3,2 stoðsendingar að meðaltali í úrslitakeppninni þar sem Keflavíkurliðið vann 5 af 6 leikjum sínum og þá var Boucek með 27 stig í sigri Keflavíkur í bikarúrslitaleiknum.

Boucek varð að leggja skóna á hilluna árið eftir vegna bakmeiðsla en hefur síðan unnið sem þjálfari. Boucek var meðal annars aðalþjálfari Sacramento Monarchs WNBA-liðsins frá 2007 til 2009 en hefur lengstum verið aðstoðarþjálfari Seattle Storm.

Jenny Boucek náði því að verða fyrst allra til að vera leikmaður, aðstoðarþjálfari og þjálfari í WNBA-deildinni.

Auk þess að þjálfa í WNBA-deildinni þá hefur hún unnið fyrir NBA-lið. Hún vann sem njósnari fyrir Seattle Supersonics og var þá fyrsta konan til að fá það starf.

Nú síðast vann Boucek í æfingabúðum fyrir núverandi tímabil hjá Dallas Mavericks en hún og þjálfarinn Rick Carlisle þekkjast síðan þau voru saman í University of Virginia háskólanum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×