Erlent

Akstursbann sádiarabískra kvenna senn á enda

Atli Ísleifsson skrifar
Síðasta árið hefur hópur kvenna mótmælt akstursbanninu með því að taka myndir af sér undir stýri og birta á samfélagsmiðlum.
Síðasta árið hefur hópur kvenna mótmælt akstursbanninu með því að taka myndir af sér undir stýri og birta á samfélagsmiðlum. Vísir/AFP
Æðsta trúarráð Sádi-Arabíu hyggst ráðleggja stjórnmálamönnum landsins að afnema banni við að konur landsins fái að aka bíl, þó með ákveðnum skilyrðum.

Ráðið leggur til að einungis konur yfir þrítugt fái að aka bíl og að fenginni heimild frá karlmanni sem fylgist með akstrinum.

Enn á eftir að greina opinberlega frá áætlununum en fréttaveitan AFP hefur eftir heimildarmönnum sínum að ákvörðunin hafi verið tekin í síðasta mánuði.

Í frétt sænska ríkissjónvarpsins segir að 150 menn eigi sæti í ráðinu og séu allir sérvaldir af konungi landsins. Ráðið leggur til að konur fái nú að aka bíl milli klukkan sjö á morgnana til átta á kvöldin. Þá verði allar konur sem setjast undir stýri að vera klæddar á íhaldssaman hátt og vera ófarðaðar.

Síðasta árið hefur hópur kvenna mótmælt akstursbanninu með því að taka myndir af sér undir stýri og birta á samfélagsmiðlum.

Akstursbannið í Sádi-Arabíu er einstakt í heiminum og öfgaíhaldssamir prestar landsins hafa til þessa neitað að ræða málið, hvað þá afnema banninu. Hafa þeir sagt akstur kvenna hafa slæm áhrif á samfélagið og að hann kunni að eyðileggja eggjaframleiðslu konunnar.

Samfélagið í Sádi-Arabíu er mjög íhaldssamt og þurfa konur að bera svartan kufl sem kallast Abaya til að hylja líkama sinn opinberlega. Auk þess þurfa þær að bera blæju sem hylur hár þeirra, axlir og hluta andlits.

Á Vísindavefnum segir að þær megi sem fyrr segir ekki sjást opinberlega með öðrum körlum en eiginmönnum sínum eða skyldmennum. Skólar séu kynskiptir svo og vinnustaðir en atvinnuþátttaka sádískra kvenna er mjög lítil. Þær megi heldur ekki ferðast um á reiðhjólum. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×