Viðskipti innlent

Óska eftir upplýsingum um útboð á farmiðakaupum

vísir/vilhelm
Félag atvinnurekenda hefur skrifað Ríkiskaupum bréf og óskað upplýsinga um stöðu áforma um að bjóða út farmiðakaup ríkisins í millilandaflugi á nýjan leik.

Á vef Félags atvinnurekenda er rifjað upp að árið 2012 sögðu Ríkiskaup upp rammasamningi við Icelandair og Iceland Express um flugsæti til og frá Íslandi. Kærunefnd útboðsmála hafði þá ítrekað komist að þeirri niðurstöðu að brotið hefði verið á síðarnefnda flugfélaginu með gerð samninga ríkisins við Icelandair um utanlandsferðir ríkisstarfsmanna.

Um leið og Ríkiskaup sögðu upp rammasamningnum tilkynnti stofnunin að hún hygðist höfða mál fyrir dómstólum til ógildingar úrskurðar kærunefndarinnar. Það mál var aldrei höfðað og stendur úrskurður nefndarinnar því óhaggaður.

Jafnframt tilkynntu Ríkiskaup að stofnunin hygðist bjóða út farmiðakaup ríkisins á nýjan leik. Ekkert hefur spurst af því útboði. Flest bendir til að ríkið kaupi langstærstan hluta flugmiða vegna utanlandsferða ríkisins af Icelandair, án útboðs eða samnings um afslætti. Með því er bæði farið illa með skattfé og keppinautum í millilandaflugi mismunað.

Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri FA, hefur því skrifað forstjóra Ríkiskaupa og farið fram á upplýsingar um stöðu útboðsins sem boðað var og hvenær þess er að vænta að það komi til framkvæmda.


Fleiri fréttir

Sjá meira


×