Handbolti

Aðalsteinn: Enginn átti von á þessu

Anton Ingi Leifsson skrifar
Aðalsteinn er nú án félags.
Aðalsteinn er nú án félags. Vísir/Aðsend
Aðalsteinn Eyjólfsson segir að liðinu hafi vantað sjálfstraust þetta tímabilið eftir erfitt gengi í þýsku úrvalsdeildinni í fyrra, en Aðalsteini var sagt upp störfum hjá Eisenach í dag.

„Það er búið að ganga illa og eftir að við töpuðum í gær tóku forsetinn og framkvæmdarstjórinn þessa ákvörðun. Það er lítið hægt að kvarta yfir henni," sagði Aðalsteinn í samtali við Vísi.

„Það var mikil pressa á liðinu og við vorum yfirleitt að leiða leikina, en misst marga leiki niður. Ekki náð að klára leikina og glutrað þeim niður á grátlegan hátt, sérstaklega á heimavelli."

Aðalsteinn segir að tímabilið í ár hafi verið afar erfitt eftir dapurt gengi í deild þeirra bestu á síðustu leiktíð.

„Það vantaði bara sjálfstraust í liðið. Við vorum nátturlega að spila við ofurefli í 90% af leikjunum í úrvalsdeildinni á síðustu leiktíð og það vantaði bara sjálfstraust í liðið."

„Við vorum með lítið fjárráð. Ég og forráðamenn klúbbsins höfum þó átt gott samstarf, en við tókum vitlausar ákvarðanir til dæmis í sumum leikmannakaupum og fleira," sagði Aðalsteinn.

Hannes Jón Jónsson og Bjarki Már Elísson leika með Eisenach, en hann segir að flestir hafi verið slegnir þegar þeir heyrðu tíðindin: „Ég tilkynnti þeim þetta í gær og það voru bara allir slegnir. Það átti enginn von á þessu."

Hann segir að nú taki bara vinna við hjá sér að finna sér nýtt félag.

„Ég fer núna bara á fund á mánudaginn og klára mín starfslok hjá félaginu. Það hefur enginn þjálfari verið eins lengi hjá Eisenach og ég síðan fyrir sameiningu og menn voru byrjaðir að halda að ég stýrði klúbbnum."

„Núna fer umboðsmaður minn bara að leita, en ef ekkert gengur upp reikna ég með að koma til Íslands næsta sumar. Ég er alls ekki hættur að þjálfa," sagði Aðalsteinn að lokum í samtali við Vísi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×