Innlent

Nemendum ýtt frá framhaldsskólanámi á landsbyggðinni

Heimir Már Pétursson skrifar
„Ég er dálítið ráðalaus hvernig ég geri þetta. En ég vonast bara til að eiga gott samstarf við ráðuneytið um það, hvernig við leysum þetta. En ég sé það ekki í hendi mér,“ segir Lára Stefánsdóttir.
„Ég er dálítið ráðalaus hvernig ég geri þetta. En ég vonast bara til að eiga gott samstarf við ráðuneytið um það, hvernig við leysum þetta. En ég sé það ekki í hendi mér,“ segir Lára Stefánsdóttir. vísir/anton/kristján
Skert framlög til framhaldsskóla á næsta ári leiða til þess að fækka verður nemendum í framhaldsskólum á landsbyggðinni verulega. Skólameistari framhaldsskólans á Tröllaskaga segir að nemendum gæti fækkað um allt að 60 sem komi niður á fjölbreytni námsins en hún hafi ekki haft andlegan styrk til að reikna út hvað hún þurfi að fækka kennurum mikið.

Framlög til framhaldsskóla í fjárlagafrumvarpi næsta árs eiga að leiða til þess að framlög á hvern nemenda aukist. Skólunum er síðan úthlutað nemendaígildum af menntamálaráðuneytinu sem stýrir í raun fjárframlögum til hvers og eins skóla.

Menntamálaráðherra vill taka upp þá reglu að aldurstakmark verði setti í framhaldsskólunum við 25 ára aldur. Lára Stefánsdóttir skólameistari framhaldsskólans á Tröllaskaga við Ólafsfjörð segir þá reglu ekki duga til við hennar skóla, því miðað við framlög til skólans þurfi hún að fækka nemendum meira en 25 ára reglan leiði til.

„Fyrir Menntaskólann á Tröllaskaga er þetta erfitt vegna þess að við höfum verið í uppbyggingu, tiltölulega nýr skóli stofnaður árið 2010, og höfum verið að byggja um þriggja ára framhaldsskóla í nýja kerfinu. Þannig að við erum í vexti og erum núna með 140 nemenda ígildi sem eru um 220 nemendur í skólanum,“ segir Lára.

Eins og Lára sagði þá vinnur skóli hennar nú þegar eftir markmiðum menntamálaráðherra um styttingu framhaldsskólanámsins niður í þrjú ár. En auk þess að vera skólameistari á Tröllaskaga er Lára formaður stjórnar Fjarmenntskólans, sem nær til 12 lítilla framhaldsskóla á landsbyggðinni.

Hún segir að miðað við framlög til minni framhaldsskólanna á landsbyggðinni sem reyni að vinna saman til að auka hagkvæmni og fjölbreyttni námsins muni nemendum þessara skóla þurfa að fækka um 360 á næsta ári og um allt að sextíu í hennar skóla. Hún fær úthlutað 112 nemendaígildum en er nú þegar með 140 nemendaígildi við skólann. Þetta geti þýtt að nemendur sem eru langt komnir í námi þurfi að yfirgefa skólann.

„Og hér hefur verið svæði sem er ekki sem er ekki mjög hámenntað þannig að fólk hefur verið að drífa sig í skóla og erfitt að segja við það nú er það ekki hægt lengur, þið verðið að hætta námi,“ segir Lára.

Og það muni ekki eingöngu ná til nemenda sem eru 25 ára og eldri, því skerðing nemendaígildanna sé meiri en nemi þeim fjölda.

„Þannig að ég er dálítið ráðalaus hvernig ég geri þetta. En ég vonast bara til að eiga gott samstarf við ráðuneytið um það, hvernig við leysum þetta. En ég sé það ekki í hendi mér,“ segir Lára.

Fjarmenntaskólarnir hafi náð að vinna vel saman til að ná fram hagkvæmni, m.a. með samnýtingu kennara og hópa,  en þurfi tíma til að þróa það frekar. Nú eru 24 kennarar við skólans ýmist í hlutakennslu eða fullri kennslu.

„Sem ég hef meiri trú á til sparnaðar fyrir ríkið heldur en þessi leið. Við erum að sjá niðurskurðartölur í tugum prósenta. Á milli 10 og 20 prósent á meðan þéttbýlið er að horfa almennt á 5 til 10 prósent,“ segir Lára.

Hvað sérðu fyrir þér að þú þurfir að fækka mikið hjá þér starfsfólki?

„Ég hef bara ekki haft andlegan styrk til að reikna það, svo ég segi bara eins og er. En ég þarf bara að skoða það,“ segir Lára Stefánsdóttir skólameistari.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×