Innlent

Yoko Ono býður öllum að taka þátt í friðarathöfninni

Stefán Árni Pálsson skrifar
visir/vilhelm
Yoko Ono býður öllum sem vilja koma og taka þátt í friðarathöfninni fría siglingu yfir Sundið á morgun en þetta kemur fram í tilkynningu frá Reykjavíkurborg.

Siglingar til Viðeyjar verða frá Skarfabakka frá klukkan 18.00 til 20.00. Fríar strætóferðir verða frá Hlemmi að Skarfabakka og til baka. Fyrsti vagn fer klukkan 17.35 frá Hlemmi og síðan á tuttugu mínútna fresti fram til kl. 19.35.

Að athöfn lokinni siglir fyrsta ferja frá Viðey kl. 21.00 og munu strætisvagnarnir taka á móti fólki og flytja það að Hlemmi.

Dagskráin við Friðarsúluna hefst í Viðeyjarnausti klukkan 19.00 með tónlistarflutningi Snorra Helgasonar.

Naustið verður lýst upp með kertum og þar verður hægt að setjast niður og kaupa sér heitt kakó og dálítið meðlæti. Þar mun Óskatré Yoko Ono standa og geta gestir skrifað á það óskir sínar.

Í kringum Friðarsúluna eru grafnar óskir hálfrar miljóna einstaklinga víðsvegar að úr heiminum sem Yoko Ono hefur safnað saman á síðustu áratugum.

Við Friðarsúluna mun stúlknakórinn Graduale Nobili syngja nokkur lög en kynnir kvöldsins er Þórunn Lárusdóttir. Veitingasala verður í tjaldi fyrir utan Viðeyjarnaust, þar sem unnt er að kaupa heitt kakó, kaffi og bjór auk léttra veitinga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×