Skoðun

Fjölbreyttara atvinnulíf

Árni Páll Árnason skrifar
Fyrsta mál Samfylkingarinnar nú við upphaf þingvetrar er að efla stuðning við lítil og meðalstór fyrirtæki og fyrirtæki í tækni- og hugverkaiðnaði. Við leggjum til aðgerðir sem miða að því að skjóta fjölbreyttari stoðum undir atvinnulíf á Íslandi og búa til vellaunuð störf um allt land.

Helsti vandi íslensks efnahagslífs nú er kyrrstaðan og einangrunin sem leiðir af höftum og veikum gjaldmiðli. Áhersla núverandi ríkisstjórnar hefur verið á að draga til baka margháttað frumkvæði ríkisstjórnar jafnaðarmanna í uppbyggingu stoðkerfis tækni- og atvinnuþróunar. Þess vegna er brýn þörf á að snúa vörn í sókn.

Betra skattaumhverfi

Við leggjum til breytingar á skatta­umhverfi lítilla og meðalstórra fyrir­tækja og þeirra einstaklinga sem fjárfesta í þeim. Veita á skattaafslátt til einstaklinga sem fjárfesta í litlum og meðalstórum fyrirtækjum, hvort sem það er með beinni fjárfestingu eða sjóðum sem sérhæfa sig í því.

Þá leggjum við til að lækkun tryggingargjalds verði sett í forgang, enda leggst það á launakostnað. Hann er hlutfallslega þyngstur hjá þekkingar- og nýsköpunarfyrir­tækjum og lækkun hans auðveldar fyrirtækjum að hækka laun og fjölga starfsfólki.

Auka á nýfjárfestingar

Við viljum veita lífeyrissjóðum auknar heimildir til að fjárfesta í óskráðum félögum. Hagsmunir lífeyrissjóðanna sem búa við takmarkaða fjárfestingakosti vegna hafta og fjölda tækni- og hugverkafyrirtækja í vexti þarfnast fjármagns.

Við viljum beita sértækum ívilnunum vegna nýfjárfestinga sem miða að því að auka fjárfestingar í rannsóknar- og þróunarverkefnum og þjálfun starfsfólks. Fela á Íslandsstofu að markaðssetja og kynna slíkar ívilnanir, hér á landi og erlendis, í samráði við Samtök iðnaðarins. Ný ríkisstjórn lét illu heilli lög um ívilnanir vegna nýfjárfestinga renna út í lok síðasta árs, en boðar nú bót og betrun.

Byggja þarf upp upplýsingaveitu um þau tækni- og hugverkafyrirtæki sem leita fjárfesta í samstarfi nokkurra aðila, m.a. fjárfestingasviðs Íslandsstofu og nýsköpunarmiðstöðvar Íslands. Þær aðstæður hafa skapast hér eftir hrun að fjármagn leitar í einsleita ávöxtunarkosti og þess vegna mikilvægt að kynna vel kosti fjárfestingar í minni fyrirtækjum og ívilnanir sem þeim fylgja.

Við viljum að grænn fjárfestingasjóður verði starfræktur sem styður við uppbyggingu græns hagkerfis. Þar verði áhersla á fjárfestingar í tækni- og hugverkafyrirtækjum á sviði umhverfistækni og vistvænna lausna.

Efling verk- og tæknináms

Efla þarf verk- og tækninám til að svara eftirspurn atvinnulífsins eftir starfskröftum með slíka menntun. Við unnum stórvirki í tíð síðustu ríkisstjórnar við að koma ungu atvinnulausu fólki til þjálfunar og náms. Þau verkefni hafa nú öll verið slegin af. Gera þarf aðgerðaráætlun um eflingu verk- og tæknináms á Íslandi sem hefur það markmið að fjölga nemendum sem stunda verk- og tækninám. Auka þarf fjárframlög til málaflokksins á öllum skólastigum, rannsaka þarfir atvinnulífsins, þróa nýjar námsleiðir og auka vægi verk- og tæknigreina í grunnskólum.

Á Tækni- og hugverkaþingi árið 2013 hlutu þessar tillögur Samfylkingarinnar 1., 2. og 3. verðlaun þegar stjórnmálaflokkarnir kepptu nafnlaust um hylli gesta. Þingmenn Samfylkingarinnar munu áfram vinna að þessum tillögum strax nú á haustdögum við fjárlagagerð og umræður um hvítbók menntamálaráðherra um umbætur í menntakerfinu. Til þess munum við þurfa stuðning atvinnulífsins.




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×