Innlent

Gunnar Bragi segir Rússa hafa skapað ótryggt ástand í Evrópu

Atli Ísleifsson skrifar
Utanríkisráðherrar Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna komu saman til fundar í Tallinn í dag.
Utanríkisráðherrar Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna komu saman til fundar í Tallinn í dag. Mynd/Utanríkisráðuneyti Eistlands
„Rússnesk stjórnvöld hafa með inngripi í málefni Úkraínu skapað ótryggt ástand í Evrópu. Alþjóðalög hafa verið þverbrotin með ólöglegri innlimun Krímskaga í Rússland og stefna Rússlands grefur undan stöðugleika í allri álfunni,“ segir Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra sem tók þátt í fundi utanríkisráðherra Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna í eistnesku höfuðborginni Tallinn í dag.

Gunnar Bragi segir Eystrasaltsríkin öll eiga landamæri að Rússlandi og vilji eiga í vinsamlegum samskiptum við þarlend stjórnvöld en þeim er verulega órótt vegna stöðunnar sem nú er uppi. „Við stöndum þétt að baki grönnum okkar í Eistlandi, Lettlandi og Litháen og krefjumst þess að fullveldi þeirra sé ávallt að fullu virt," segir Gunnar Bragi. 

Öryggishorfur í Evrópu var helsta umfjöllunarefni fundar ráðherranna. Gunnar Bragi segir brýnt að hvergi verði kvikað frá þeim grundvallargildum sem eru leiðarljós í utanríkisstefnu ríkjanna, virðingu fyrir alþjóðalögum, lýðræði, mannréttindum og réttarríkinu. Hann segir mikla samstöðu ríkja í hópi Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna og sem fyrr valdi framferði Rússlands í Úkraínu áhyggjum.

Í tilkynningu frá utanríkisráðuneytinu segir að ráðherrar Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna lýsi þungum áhyggjum af fangelsun eistnesks lögreglumanns sem var numinn á brott af rússneskum öryggissveitum innan landamæra Eistlands 5. september síðastliðinn. „Í sameiginlegri yfirlýsingu ráðherranna eru rússnesk stjórnvöld hvött til þess að leysa lögreglumanninn þegar í stað úr haldi og tryggja að hann snúi heilu og höldnu heim til Eistlands.

Ánægja er með niðurstöðu leiðtogafundar Atlantshafsbandalagsins sem haldinn var í Wales í síðustu viku þar sem samstaða bandalagsríkja var áréttuð með skýrum hætti, viðbragðsáætlanir bandalagsins efldar og ákvarðanir teknar um aukna viðveru í austanverðri Evrópu. Mikilvægi samstarfsríkja sem standa utan Atlantshafsbandalagsins var jafnframt undirstrikuð á leiðtogafundinum. Þar staðfestu Finnland og Svíþjóð áframhaldandi náið samstarf við bandalagið sem styrkir enn frekar tengsl Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna á sviði öryggis- og varnarmála.

Ráðherrarnir ræddu uppgang ISIL hryðjuverkasamstakanna, þá ógn sem af þeim steðjar og með hvaða hætti alþjóðasamfélagið getur brugðist við þeim hroðaverkum sem samtökin hafa framkvæmt. Þá var rætt um orkumál í Evrópu, hvernig auka megi þátt endurnýjanlegra orkugjafa, tryggja betur orkuöryggi álfunnir og styrkja innviði sem stuðla að skilvirkari orkumarkaði,“ segir í tilkynningunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×