Viðskipti innlent

Setuverkfall á DV: Blaðamenn sitja aðgerðarlausir

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Frá fundi ritstjórnar með nýjum ritstjóra og stjórnarformanni DV í morgun.
Frá fundi ritstjórnar með nýjum ritstjóra og stjórnarformanni DV í morgun. Vísir/GVA
Samkvæmt heimildum Vísis ríkir eiginlegt setuverkfall á ritstjórn DV í Tryggvagötu. Blaðamenn sitja aðgerðarlausir við tölvuna og umbrotsfólk er farið heim.

Líkt og fjallað var um fyrr í dag kemur DV ekki út á morgun. Útgáfu blaðsins var frestað til þriðjudags. Hallgrímur Thorsteinsson, nýr ritstjóri miðilsins, sagði hins vegar að blaðamenn væru farnir að leggja drög að blaðinu en það stangast á við heimildir Vísis af ritstjórn blaðsins.

Blaðamenn eru afar ósáttir við að fá ekki skýr svör frá Þorsteini Guðnasyni stjórnarformanni við spurningum sem bornar voru fram á fundi í morgun. Sem kunnugt er var Reynir Traustason, fyrrverandi ritstjóri blaðsins, leystur frá starfskyldum sínum um helgina. Honum hefur þó ekki verið sagt upp störfum. Þorsteinn ýjaði að því á fundi með starfsmönnum í morgun að ástæðan væri sú að hann og aðrir stjórnarmenn ættu eftir að kynna sér ráðningarsamninginn við Reyni.

Sömuleiðis eru blaðamenn reiðir yfir yfirlýsingu stjórnarinnar um að til standi að láta fara fram úttekt á félaginu. Þar á meðal annars að skoða faglega þætti við störf ritstjórnar og túlka blaðamenn þá aðgerð sem gagnrýni á sín störf.

Þorsteinn yfirgaf fundinn í morgun klukkan 11 og taldi blaðamaður DV sem Vísir ræddi við í hádeginu að fundinum yrði framhaldið eftir hádegi. Það virðist hins vegar ekki hafa verið skilningur Hallgríms og Þorsteins.

Á meðan virðist enginn skrifa fréttir á ritstjórn DV en vefsíðan DV.is hefur ekki enn verið uppfærð í dag þegar þessi frétt er skrifuð.

Uppfært klukkan 15:13:

Samkvæmt heimildum Vísis af ritstjórninni bíða blaðamenn þar eftir afsökunarbeiðni frá stjórninni. Enginn sé þar í vinnugír enda telji þeir gróflega vegið að starfsheiðri sínum. Fólk sé verulega ósátt.

Hallgrímur Thorsteinsson, nýr ritstjóri DV, segir hins vegar í samtali við fréttastofu að dagurinn í dag sé tiltölulega eðlilegur dagur á ritstjórn. Fólk sé að störfum en ástæða þess að vefsíða DV.is hafi ekki verið uppfærð í dag, þegar klukkan er farin að ganga fjögur, sé sú að starfsmann hafi vantað á vakt. Sú staðreynd að vefsíðan hafi ekki verið uppfærð í dag telur hann ekki tengjast fundinum með starfsmönnum í morgun. Það séu ótengd mál.

Uppfært klukkan 16:00

Starfsfólk DV er ósátt við fullyrðingar Þorsteins Guðnasonar í viðtali við RÚV. Þar sagðist Þorsteinn ætla að taka afstöðu til kröfu starfsmanna um svör síðar í dag. Hann skilji hins vegar ekki hvers vegna hann eigi að biðja starfsfólk afsökunar. Starfsmenn geti ekki beitt sig kúgunum. Þeirra starf sé að skrifa fréttir og geri þeir það ekki séu þeir að bregðast starfskyldum sínum.

Einn blaðamaður DV segir svívirðilegt af Þorsteini segja starfsfólk beita sig kúgunum. Hann fatti greinilega ekki hvers vegna blaðamenn séu ósáttir. Álykti hann sem svo að fólk sé að bregðast starfskyldum sínum verði hann að segja fólki upp. Þá sitji hann uppi án mannauðs og þar með ekkert dagblað.


Tengdar fréttir

DV kemur ekki út á morgun

"Deilurnar í hluthafahópnum hafa verið erfiðar og margir eru sárir vegna yfirlýsinga og framgöngu sumra stjórnarmanna,“ segir Hallgrímur Thorsteinsson, nýr ritstjóri blaðsins






Fleiri fréttir

Sjá meira


×