Innlent

"Hingað eru allir velkomnir, alltaf"

Hrund Þórsdóttir skrifar
Markmið bókasafnsdagsins, sem haldinn var hátíðlegur í dag, er að vekja athygli á mikilvægi bókasafna.

„Almenningsbókasöfn eru griðastaður fyrir okkur öll. Hingað eru allir velkomnir, alltaf, hvort sem það er til að fá lánaðar bækur, sækja viðburði eða bara til að dvelja á safninu til skemmtunar og afþreyingar,“ segir María Þórðardóttir, deildarbókavörður á Borgarbókasafninu.

Yfirskrift dagsins er „Lestur er bestur“ og í dag er einmitt alþjóðlegur dagur læsis. Starfsmenn bókasafna kusu sínar uppáhaldssögupersónur og reyndust persónur úr barnabókum mörgum ofarlega í minni. Lína Langsokkur bar höfuð og herðar yfir aðrar persónur í kosningunni en aðrar sem skoruðu hátt voru til dæmis Bjartur í Sumarhúsum og Góði dátinn Svejk. Svo má nefna að hinn rammíslenski Erlendur úr bókum Arnaldar Indriðasonar og teiknimyndapersónan Tinni, stóðu nokkuð jafnir að vígi. Almenningur getur nú kosið sínar uppáhaldssögupersónur hér.

Í tilefni dagsins voru veitt verðlaun fyrir Bókaræmuna, sem er örmyndakeppni um bækur fyrir 13 til 20 ára. Fyrsta sæti hlaut Sunneva Thomsen Halldórsdóttir fyrir mynd um Prinsessuna í Hörpunni og í meðfylgjandi myndskeiði má sjá brot úr henni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×