Erlent

Íraksforseti vill nýjan forsætisráðherra

Atli Ísleifsson skrifar
Haider al-Abadi er varaforseti írakska þingsins.
Haider al-Abadi er varaforseti írakska þingsins. Vísir/AFP
Fuad Masum Íraksforseti hefur beðið Haider al-Abadi, varaforseta þingsins, um að mynda nýja ríkisstjórn. Abadi hefur verið tilnefndur af flokkum sjíta í stað Nouri al-Maliki, núverandi forsætisráðherra. Þetta kemur fram í frétt BBC.

Forsetinn hafði áður ekki viljað veita Maliki stjórnarmyndunarumboðið, en forsætisráðherrann líkti slíkt við valdarán.

Maliki hefur farið fram á að gegna embættinu þriðja kjörtímabilið í röð, en uppgangur íslamista í norðurhluta landsins hefur leitt til að málsmetandi menn – sjítar, súnnítar og Kúrdar – hafa hvatt Maliki til að stíga til hliðar.

Maliki er sjálfur sjía-múslími, en Masum Kúrdi. IS-samtökin hafa náð stórum landsvæðum í norðurhluta landsins á sitt vald þar sem flestir Kúrdar búa.

Síðasta áratuginn hefur verið samkomulag um að forseti landsins sé úr röðum Kúrda, forsætisráðherra sjíti og forseti þingsins súnníti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×