Viðskipti innlent

Hafði ekki hugmynd um að hann ætti fullt af milljónum

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
Eiríkur Jónsson hefur haldið úti vefsíðunni eirikurjonsson.is í á þriðja ár.
Eiríkur Jónsson hefur haldið úti vefsíðunni eirikurjonsson.is í á þriðja ár.
„Ég hafði ekki hugmynd um að ég ætti allt í einu sautján milljónir,“ segir Eiríkur Jónsson um hlut sinn í vefsíðunni eirikurjonsson.is.

Í kvöldfréttum RÚV í gærkvöldi kom fram að sextíu prósenta hlutur í vefsíðunni, sem er í eigu Þorsteins Guðnasonar eins eiganda DV ehf, væri metinn tæpar 26 milljónir króna. Eiríkur á sjálfur fjörutíu prósenta hlut í vefsíðunni og því ætti hans hlutur að vera um 17 milljóna virði og síðan í heild sinni því metin á 43 milljónir króna.

Í frétt RÚV kom enn fremur fram að Þorsteinn hafi notað sinn hlut sinn í eirikurjonsson.is til þess að greiða fyrir kaup á hlut í DV ehf. Hlutur Þorsteins í DV kostaði fjórtán milljónir króna og greiddi hann tíu milljónir í reiðufé og hafi hlutur hans í eirikurjonsson.is þá verið metinn á fjórar milljónir króna.

Þorsteinn segist svo hafa notað sömu aðferðafræði til þess að reikna út verðmæti eirikurjonsson.is og notuð er til þess að reikna út virði DV.is. Þannig hafi hann fengið út að 60% hlutur sinn væri  26 milljóna króna virði. Það þyrfti þó ekki að endurspegla raunverulegt virði síðunnar.

Hægt að reikna allt

Í samtali við Vísi segir Eiríkur Jónsson að hægt sé að fá út allar niðurstöður sem menn vilja, þetta fari allt eftir reikniformúlunum. „Þarna eru notaðar sömu reiknikúnstir og notaðar eru til að reikna út virði annarra fjölmiðla. Þetta er sett inn í einhverja formúlu, sem allir nota virðist vera, og þá er þetta niðurstaðan. Ég hef aldrei komið nálægt þessu. Ég veit í raun ekkert meira um þetta.“

Hann bætir við: „Það er hægt að reikna allan andskotann. Það er hægt að reikna ríkisbúskapinn alveg upp úr öllu valdi. Það fer bara eftir því hvernig menn reikna. Ég veit ekkert um hvernig menn gerðu það. Ég hef aldrei reiknað þetta út.“

Eiríkur hafði ekki áður heyrt að sextíu prósenta hlutur í síðunni væri 26 milljóna króna virði. „Nei,nei ég hef aldrei heyrt þetta. Enda eru það einhverjir aðilar úti í bæ sem eiga þetta og þetta er matið á því. Þannig að þau fjörutíu prósent sem ég á eftir eru þá sautján milljóna króna virði,“ segir hann.

Vísir sagði frá því í mars fyrir tveimur árum að vefur Eiríks væri kominn í loftið. Þá sagði fjölmiðlamaðurinn reyndi: „Þetta er nýr vefur sem byggir á löngum ferli mínum. Ég hef verið að blogga á Eyjunni með 35 til 40 þúsund lesendur á viku og þetta byggir á því. En það verður meira á síðunni og þetta verður nýstárlega sett upp."

Þá kom fram að fjársterkir aðilar hefðu komið að stofnun hlutafélagsins Eiríkur Jónsson ehf. Þessir aðilar fengu sextíu prósenta hlut í hlutafélaginu og hélt Eiríkur eftir fjörutíu prósentum.

Eiríkur bætir því nú við að hlutur hans í vefnum sé til sölu á sautján. „Hann er til sölu. Verður seldur alveg á staðnum fyrir þessa upphæð.“

Uppfært klukkan 14:01:

Upphaflega stóð að 60% hlutur Þorsteins Guðnasonar hafi verið metinn á 43 milljónir, en það rétta er að vefsíðan í heild sinni var metin á þá upphæð. Þannig skiptast 43 milljónirnar sem vefsíðan er metin á (út frá ákveðnum forsendum) á milli félags í eigu Þorsteins annars vegar (26 milljónir) og Eiríks Jónssonar hins vegar (17 milljónir). Haft var samband við Eirík Jónsson og fréttinni breytt til að leiðrétta þennan misskilning.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×