Innlent

Ökklabrotnaði en landaði laxinum með berum höndum

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
Birkir Björnsson við veriðar í Elliðaá í fyrra.
Birkir Björnsson við veriðar í Elliðaá í fyrra. Vísir/Úr einkasafni
Veiðiferð Birkis Björnssonar í fyrradag endaði ekki vel. Birkir stökk út í Elliðaá, á eftir laxi sem var að sleppa og ökklabrotnaði í leiðinni. Hann þurfti að fara beint úr veiðinni á slysavarðstofuna.

„Það er óneitanlega einkennilegt að sitja í vöðlum í hjólastól þar. Óska þess að enginn þurfi að leika það eftir,“ segir hann um veiðiferðina í fyrradag.

Setti út litla flugu

Birkir var við veiðar í fyrradag ásamt svila sínum, Atla Bergmann. Þeir höfðu bókað svæði í Elliðaálnum sem kallast Hraun. Birkir rifjar upp hvernig hann rölti á undan svila sínum að staðnum sem þeir ætluðu að veiða á. „Atli ætlaði að koma með bílinn þangað. Ég settist á bakkann við Hraunið og starði í strenginn og hugsaði um hvaða fluga myndi nú gera eitthvað fyrir okkur hérna,“ útskýrir hann.

Birkir hitti menn sem höfðu verið við veiðar í Hrauni á undan honum og Atla. „Þeir höfðu ekki séð lax þarna. Ég hafði nú takmarkaða trú á því að það ástand héldi áfram og valdi að setja undir micro BlueCharm þyngda og krók nr. 16,“ útskýrir Birkir á fagmáli veiðimannsins. Birkir útskýrir að flugan og krókurinn séu í minni kantinum.

Að hrökkva eða stökkva

Hann sat einn við veiðar þegar lax beit á litlu fluguna. „Þá hófust þarna átök og vitandi það hve lítil flugan var þorði ég ekki að taka mikið á laxinum og var dágóða stund að þreyta hann. Ég kom honum inn í litla röst byrjaði rölta niður í átttina til hans, með það fyrir augum að landa honum. Þá gerðist það sem ég hafði hræðst; litli krókurinn gaf sig og datt úr. Laxinn lá því þarna hálfur í kafi og var byrjaður að skrölta út aftur.“

Orðatiltækið að hrökkva eða stökkva átti vel við þessar aðstæður; Birkir ákvað að slá til og hreinlegastökkva á eftir laxinum svo hann slyppi ekki aftur út í ána:

„Ég hentist á eftir honum með þeim afleiðingum að ég festi löppina á milli steina hrundi niður og ökklabraut mig .En ég náði samt sem áður taki á laxinum og kom honum á land, með brotinn ökkla. Síðan kom ég sjálfum mér á land og þar lágum við hlið við hlið, laxinn og ég, dauðuppgefnir eftir baráttuna. Eftir að hafa náð andanum hringdi ég í Atla og bað um að klára að koma mér í land og afgreiða fiskinn áður en hann skoppaði aftur út í.“

Með skottið á milli lappanna

Birkir hvatti Atla til þess að láta þessi meiðsli ekki hafa áhrif á veiðimennskuna. Hann sagði Atla að halda áfram að veiða. „Svo með skottið á milli lappanna hringdi ég í frúna sem kom og keyrði mig á slysavarðstofuna. Það er óneitanlega einkennilegt að sitja í vöðlum í hjólastól þar. Óska þess að enginn þurfi að leika það eftir.“

Að lokinni röntgenmyndatöku og læknismeðferð hélt Birkir heim ásamt konu sinni. „Ég óskaði eftir því að fá grillaðan lax í kvöldmat og drekka með honum eðal hvítvín,“ segir hann. 

Birkir er vanur veiðimaður og á myndinni hér að ofan sést hann við veiðar í Elliðaá. Hann ætlar ekki að láta þetta á sig fá og mun aftur fara að veiða þegar hann hefur jafnað sig af brotinu. „En núna ligg ég heima og bryð verkjapillur.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×