Innlent

Kynjahalli eykst meðal presta

Samúel Karl Ólason skrifar
Kristín Þórunn Tómasdóttir er formaður Félags prestvígðra kvenna.
Kristín Þórunn Tómasdóttir er formaður Félags prestvígðra kvenna. Vísir/Vilhelm
Búið er að skipa í níu prestsembætti innan þjóðkirkjunnar í vor og í sumar. Í fimm tilvikum voru karlar skipaðir og í fjórum tilvikum konur. Þó ganga hins vegar sjö konur og tveir karlar úr þessum níu embættum.

Í tilkynningu frá Félagi prestvígðra kvenna segir að ljóst sé að kynjahalli í prestsembættum hafi aukist.

Kristín Þórunn Tómasdóttir, formaður Félags prestvígðra kvenna, segir í samtali við Vísi að konur séu um einn þriðji presta á landinu. Á landinu öllu eru um 90 sóknarprestsembætti og félagið kannaði stöðu kvenna þar í vor.

„Konur eru um fjórðungur sóknarpresta. Svo horfðum við til svæðisins Reykjavík og nágrenni. Þar eru 31 sóknarprestsembætti og þar af sjö konur,“ segir Kristín.

Félag prestvígðra kvenna sendi í dag frá sér samþykkt þar ályktun aðalfundar félagsins frá því í maí er ítrekuð. Þar var bent var á alvarlegan kynjahalla í prestsembættum kirkjunnar. Fundurinn bendir á að jafnréttislög landsins og jafnréttisstefna Þjóðkirkjunnar eru í fullu gildi.

Þá er skorað á valnefndir, prófasta og biskup Íslands að tryggja að lögum og reglum við veitingar prestsembætta sé fylgt og að gæta samræmis í vinnubrögðum.

„Við viljum vinna að því að kynin séu sem jöfnust í þjónustu kirkjunnar og þess vegna minnum við á að mikilvægt sé að velja presta eftir því. Þjóðkirkjan hefur samþykkt jafnréttisstefnu og hún vill stefna að því að karlar og konur séu jöfn í þjónustunni,“ segir Kristín.

„Núna teljum við mikilvægt að þeir sem koma að þessum ráðningum, sem eru sérstakar valnefndir. Hafi þetta í huga og til dæmis taki þá tillit til þess hvernig kynjasamsetningin sé á ákveðnum svæðum. Hvort það sé karl fyrir, eða hvort það séu bara karlar í næstu sóknum. Þannig að það séu bæði karlar og konur sem að þjóni sem prestar.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×