Viðskipti innlent

Kári þarf að greiða tæplega 900 þúsund krónur

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Kári Stefánsson.
Kári Stefánsson.
Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, var í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun dæmdur til að greiða verktakafyrirtækinu Elmax 880 þúsund krónur vegna vangreiddra reikninga. Þá þarf Kári einnig að greiða Elmax 1,2 milljónir króna í málskostnað.

Elmax kom að byggingu einbýlishúss Kára við Fagraþing í Kópavogi. Var Kári í héraði árið 2012 dæmdur til að greiða fyrirtækinu 1,1 milljón króna vegna vangoldinna reikninga. Kári áfrýjaði dómnum til Hæstaréttar sem taldi málsaðstæður það flóknar að boða hefði menn með sérþekkingu fyrir dóminn. Málið var því sent aftur heim í hérað.

Sérfróðir meðdómsmenn, rafmagnstæknifræðingur og rafvirkjameistari, kváðu upp dóminn í morgun ásamt héraðsdómara. Kári var ekki viðstaddur dómsuppkvaðningu.

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Kári er dæmdur til greiðslu vangoldinna reikninga. Í október 2013 var hann dæmdur til að greiða Fonsi ehf. níu milljónir króna vegna vangoldinna reikninga við byggingu fyrrnefnds einbýlishúss. Þá þurfti hann að greiða Eykt ellefu milljónir króna vegna byggingar hússins árið 2010.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×