Innlent

Framsókn haldið utan nefnda á Ísafirði

Bjarki Ármannsson skrifar
Marzellíus Sveinbjörnsson, fulltrúi Framsóknar í bæjarstjórn, fær ekki sæti í nefnd.
Marzellíus Sveinbjörnsson, fulltrúi Framsóknar í bæjarstjórn, fær ekki sæti í nefnd. Vísir/Pjetur
Framsóknarflokkurinn í Ísafjarðarbæ fékk engan fulltrúa kjörinn í nefndir bæjarins á fundi nýrrar bæjarstjórnar í gær. Björt framtíð fékk hins vegar nokkra menn kjörna í nefndir, sem vekur athygli fyrir þær sakir að Framsókn náði manni inn í nýafstöðnum sveitarstjórnarkosningum en Björt framtíð ekki. 

„Í-listinn hunsar þar með fulltrúa Framsóknarflokksins sem hefur að baki sér rúmlega einn sjötta þeirra atkvæða sem þeir níu fulltrúar sem bæjarstjórnina sitja hafa alls,“ er haft eftir Marzellíusi Sveinbjörnssyni, bæjarfulltrúa Framsóknar, í bókun fundarins. „Þetta er vissulega ekki í anda þess íbúalýðræðis sem Í-listinn boðaði í stefnuskrá sinni fyrir nýliðnar sveitarstjórnarkosningar.“

Benedikt Bjarnason, oddviti Bjartrar framtíðar, var meðal annars kosinn formaður í íþrótta- og æskulýðsnefnd. Í samtali við BB.is, sem fyrst greindi frá málinu, segir Arna Lára Jónsdóttir, oddviti Í-listans, að meirihluti í bæjarstjórn vilji að sjónarmið Bjartrar framtíðar komi fram í ljósi þess að flokkurinn hafi verið „mjög nálægt“ því að koma manni að í kosningunum. 

„Framsóknarflokkurinn er með mann í bæjarstjórn og áheyrnarfulltrúa í bæjarráði þannig að sjónarmið flokksins munu koma fram,“ segir Arna Lára jafnframt.

Þessi útilokun Framsóknarflokksins vekur meðal annars athygli í ljósi þess að í Reykjavík ákvað nýr meirihluti að bjóða ekki Framsóknarflokknum, sem fékk tvo menn kjörna, til samstarfs í nefndum og ráðum með sama hætti og Sjálfstæðisflokknum, sem einnig er í minnihluta. Framsókn á fulltrúa í sjö nefndum í borginni en engan til að mynda í stjórn Orkuveitunnar, Hafnarstjórn og heilbrigðisnefnd.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×