Innlent

Hefur lengi haft áhuga á Íslendingasögunum

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Guðsorðabók frá árinu 1680
Guðsorðabók frá árinu 1680 Mynd/Jón Viðar
„Ég hef lengi haft áhuga á Íslendingasögunum og hef einsett mér að safna fyrstu prentun af sem flestum þeirra,“ segir Jón Viðar Arnþórsson í samtali við Vísi en honum áskotnaðist á dögunum forlátt eintak af Heimskringlu Snorra Sturlusonar. Bókin er frá árinu 1697 og er því 317 ára gömul.

Jón segist vera búinn að koma sér upp dágóðu safni fornbókmennta en í fórum hans eru meðal annars fyrsta prentun af Egilssögu Skallagrímssonar, Brennu-Njálssögu og Laxdælu.

Hann tók að safna bókunum fyrir tveimur árum síðan en áhuginn á Íslendingasögunum hafi þó lengi blundað í honum. „Ég bjó í Reyholti í 6 ár þegar ég var ungur en þar bjó einmitt Snorri Sturluson. Þegar ég var 2 ára gamall skýrði ég meira að segja bangsann minn Snorra í höfuðið á sagnaritaranum,“ segir Jón kíminn.

Bækurnar hefur hann flestar nálgast í gegnum fornbókabúðina Bókina á Hverfisgötu en Jón segir starfsmenn búðarinnar hafa verið honum liðtækir. Erfitt getur þó reynst að hafa uppi á bókunum og leitin getur oft staðið yfir svo mánuðum skiptir.  Jón vill þó ekkert gefa upp um upphæðirnar sem hann hefur greitt fyrir bækurnar í safni hans „En auðvitað kostar þetta sitt,“ bætir hann við.

Heimskringlan sem honum áskotnaðist á dögunum
Bækurnar geymir hann í þar til gerðum geymsluskáp sem hamlar því að sólarljós og ryk komist í bækurnar. „Maður þarf helst að skoða þær með hvítum hönskum en maður hefur kannski ekki verið nógu duglegur við það fram til þessa,“ segir Jón.

Jón Viðar er formaður og forstjóri bardagaíþróttaklúbbsins Mjölnis og hefur áhugi hans á fornbókmenntum smitast í alla umgjörð félagsins. Félagið framleiðir meðal annars boli með ljóðum úr Egils- og Grettissögu en þau eru tekin orðrétt upp úr fyrstu prentunum þeirra beggja.

Jón er í sambandi með Ágústu Evu Erlendsdóttur leikkonu sem hann segir hafa engu minni áhuga en hann sjálfur á fornritunum og því hefur þessi þráhyggja hans ekki haft nein alvarleg áhrif á sambúðina.

Jón leitar nú að fyrstu prentun af Grettis sögu en hann hefur lengi haft dálæti á bókinni. Hann biðlar til allra sem gætu haft upplýsingar um hvar hún er niðurkominn að hafa samband við sig. Aðspurður um hvort hann hafi í huga að leyfa almenningi að skoða safnið hans segir hann það ekki vera á döfinni. „Kannski í framtíðinni.“

Hér má sjá margar af uppáhaldsbókum Jóns,sumar prentaðar beint eftir skinnhandritum Árna Magnússonar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×