Innlent

Neysla kannabisefna aldrei meiri

Gunnar Atli Gunnarsson skrifar
Fíkniefna- og afbrotamálaskrifstofu Sameinuðu þjóðanna birti í gær skýrslu um stöðu fíkniefnamála í heiminum. Í skýrslunni kemur fram að Íslendingar séu sú þjóð sem neytir mestra kannabisefna á ársgrundvelli. Ísland fær þann vafasama heiður að skáka þjóðum eins og Sambíu og Bandaríkjunum. Þess ber þó að geta að þetta er í fyrsta sinn sem tölur af þessu tagi eru birtar hér á landi.

„Það er þannig að kannabisneysla hefur líklega aldrei verið meiri hér á landi, ef við tölum um hlutfall þeirra sem koma hingað og greinast með kannabisfíkn og einnig tölulegur fjöldi. Aftur á móti, eru þeir sem eru undir tvítugu, og eru kannabisfíklar og leita hingað, færri en áður. En aukningin vegur upp á móti þessari fækkun hjá þeim sem eru 30 ára og eldri og það hefur fjölgað í þeim hóp alveg gríðarlega mikið. Þetta munar um alveg 100 tilfelli á bara 10 árum“, segir Þórarinn Tyrfingsson, yfirlæknir á Vogi.

En hver er skýringin á þessari miklu fjölgun notenda kannabisefna, hjá 30 ára og eldri?

„Það er mjög auðvelt að útskýra það. Það er bara meira aðgengi að kannabisefnum. Fyrstu árgangarnir sem notuðu kannabis mjög ungir, á hverjum degi, voru árgangarnir sem voru fæddir eftir 1970 og það eru þeir árgangar sem eru núna að fara yfir fertugt og þeir eru ennþá að nota kannabis“, segir Þórarinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×