Viðskipti innlent

Fáfnir með sex milljarða samning á Svalbarða

Kristján Már Unnarsson skrifar
Varðskipið Týr er komið til Svalbarða til eftirlits- og björgunarstarfa við eyjarnar. Tíu ára þjónustusamningur Fáfnis Offshore við sýslumann Svalbarða skilar sex milljarða króna gjaldeyristekjum í þjóðarbúið. 

Sýslumaðurinn á Svalbarða tók á móti Tý þegar hann kom til hafnar á Longyearbyen fyrir helgi en Fáfnir Offshore leigir varðskipið næstu fimm mánuði af Landhelgisgæslunni eða þar til félagið fær afhent skipið Polarsyssel, sem sjósett var í Tyrklandi fyrir tveimur mánuðum. Norskir löggæslumenn verða í áhöfn ásamt Íslendingum til að annast gæslu- og björgunarstörf sem og ýmis þjónustuverkefni við Svalbarða.

Sýslumaðurinn á Svalbarða, Odd Olsen Ingerø, tók á móti Tý.Sýslumaðurinn Svalbarða/Margrete N.S. Keyser.
Samningurinn gefur Fáfni í aðra hönd um 100 milljónir króna á mánuði, sex mánuði í senn næstu tíu árin, eða samtals sex milljarða króna, og borgar þannig upp dýrasta skip Íslendinga. Auk þess greiða Norðmenn olíuna.

Steingrímur Erlingsson, framkvæmdastjóri Fáfnis.Stöð2/Raggi.
Fáfnir Offshore hyggur á enn frekari umsvif. Steingrímur Erlingsson framkvæmdastjóri segir félagið búið að festa kaup á öðru skipi, sem verði afhent í júlí á næsta ári, og félagið eigi auk þess kauprétt að þriðja skipinu. Þau eru sérsmíðuð til þjónustu við olíuiðnað á heimskautasvæðum en Steingrímur segir Fáfni veðja á Norðurslóðir. 

Nánar má fræðast um málið í fréttum Stöðvar 2 þar sem rætt var við Steingrím.


Tengdar fréttir

Dýrasta skip Íslandssögunnar sjósett í gær

Skipið er sérútbúið til að þjónusta olíuiðnaðinn í norðurhöfum, ekki síst til birgðaflutninga til og frá olíuborpöllum, er með þyrlupall og 850 fermetra þilfar.

Dýrasta skip Íslendinga smíðað fyrir olíuborpalla

Tilkynnt var í dag um smíði á fyrsta sérhæfða skipi Íslendinga til að þjónusta olíuborpalla. Þetta er jafnframt dýrasta skip sem íslenskt fyrirtæki hefur keypt. Skipið verður smíðað í Noregi, kostar 7,3 milljarða króna. og verður afhent nýju íslensku félagi, Fáfni offshore, í júlí á næsta ári. Aðaleigandi þess er Steingrímur Erlingsson en heimahöfn skipsins verður í Fjarðabyggð. Skipið er sérhæft til að flytja borstangir og annan varning til olíuborpalla en Færeyingar eru meðal þeirra sem komið hfa sér upp flota slíkra þjónustuskipa á undanförnum árum. Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra tilkynnti um smíðasamninginn á fundi í Fosnavaag í Noregi í dag. Í tilkynningu utanríkisráðuneytisins kemur fram að þetta sé dýrasta skip sem íslenskt fyrirtæki hafi keypt og er haft eftir ráðherranum að smíði þess marki tímamót í iðnaðarsögu Íslendinga. Skipið er sérstaklega byggt og styrkt fyrir aðstæður í Norður-Íshafi og verður tæplega 90 metra langt. Á því verður m.a. þyrlupallur og sérstakur eldvarnar- og hreinsibúnaður ef óhapp verður.

Týr málaður rauður

Varðskipið Týr er nú í slipp á Akureyri og hefur verið málað rautt vegna leiguverkefnis sem mun hefjast frá byrjun maí næstkomandi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×