Viðskipti innlent

Milljónir króna í vasann fyrir að hætta ekki

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Fimm starfsmenn Frjáls fjárfestingabankans fengu samtals 43,3 milljónir króna árið 2009 gegn því að hætta ekki störfum.
Fimm starfsmenn Frjáls fjárfestingabankans fengu samtals 43,3 milljónir króna árið 2009 gegn því að hætta ekki störfum. Vísir/GVA
Sparisjóður Reykjavíkur gerði árið 2004 viðbótarsamning við fjóra lykilstarfsmenn. Samningurinn fól í sér að starfsmennirnir létu ekki af störfum eða réðu sig annað. Um var að ræða eingreiðslur upp á 1-2 milljóna króna á ári allt til ársins 2007.

Í skýrslu um fall sparisjóðanna, sem kynnt var í dag, er greint frá stærstu samningum sem gerðir voru við einstaka starfsmenn.

Árið 2004 var samið um starfsflok framkvæmdastjóra fjármálasviðs sem fékk auk árslauna tólf milljóna króna eingreiðslu og ívilnun vegna bifreiðar. Árið eftir voru gerðir starfslokasamningar við tvo starfsmenn sem fengu tvær milljónir í eingreiðslu umfram hefðbundnar starfslokagreiðslur.

Framkvæmdastjóri SPRON-Verðbréfa hf. fékk 10,1 milljón króna kaupauka árið 2006 og annar starfsmaður 3 milljónir króna í eingreiðslu til viðbótar við ráðningarsamning. Þá var undirritaður starfslokasamningur við einn starfsmann sem fól í sér fjögurra milljóna króna bónus.

Þá fékk framkvæmdastjóri Frjálsa fjárfestingarbankans 10,5 milljónir króna í eingreiðslu árið 2005 og kaupauka í formi níu mánaðarlauna árin tvö á eftir. Þá fengu fimm starfsmenn bankans eingreiðslu, samtals 43,3 milljónir króna, í upphafi árs 2009 vegna samninga sem sem undirritaðir voru á árunum 2005-2006 sem viðbót við ráðningarsamning ef starfsmennirnir létu ekki af störfum fyrir félagið.


Tengdar fréttir

Skýrslan um fall sparisjóðanna í heild sinni

Farið verður yfir helstu niðurstöður rannsóknarinnar, þar á meðal starfs- og lagaumhverfi sparisjóðanna, fjárfestingar, útlán, stofnfjáraugningar, arðgreiðslur og fjárhagslega endurskipulagningu þeirra.

Heildarkostnaður rúmir 33 milljarðar

Í árslok 2012 var stofnfé í eigu ríkisins 1,9 milljarðar króna en á árinu 2013 voru afskrifaðar 213 milljónir króna af stofnfé ríkissjóðs í sparisjóðunum.

Lánsfé sótt án þess að vita til hvers

Lánsfé sparisjóða var margoft sótt á markað áður en búið var að ákveða til hvaða verkefna ætti að lána. Talið var víst að hægt yrði að lána féð út.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×