Viðskipti innlent

Skuldaleiðréttingar kosta ríkisskattstjóra nærri 300 milljónir

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Vísir/Stefán
Áætlað er að kostnaður ríkisskattstjóra vegna umsjónar með lækkun skulda verðtryggðra fasteignalána verði 285 milljónir króna.

Umsóknartímabil vegna leiðréttingar á verðtryggðum fasteignalánum hefst 15. maí 2014 og því lýkur 1. september 2014, samkvæmt frumvarpi fjármála- og efnahagsráðherra um skuldaleiðréttinguna sem lagt var fram á miðvikudag. Samkvæmt 4. gr. frumvarpsins skal beina umsóknum til ríkisskattstjóra á því formi sem hann ákveður og skal málsmeðferðin vera rafræn.

Kostnaður ríkisskattstjóra vegna framkvæmdar leiðréttingarinnar er áætlaður 285 milljónir króna, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag. Helstu kostnaðarþættir vegna leiðréttingarinnar eru laun og aðkeypt sérfræðiþjónusta. Embætti ríkisskattstjóra reiknar með 15-17 stöðugildum og fljótlega í næsta mánuði verður auglýst eftir starfsfólki.

Þegar mest verður er gert ráð fyrir útgjöldum fyrir þann þátt sem snýr að niðurfærslu á verðtryggðum húsnæðislánum frá maí til október 2015. Er sá kostnaður áætlaður 235 milljónir króna hjá ríkisskattstjóra. Þar af eru 135 milljónir árið 2014 og 100 milljónir á árinu 2015.

Fyrir 15. maí, þegar umsóknartímabil hefst, þarf vefsíðan og allur hugbúnaður að vera upp settur. Þá er gert ráð fyrir því að úrvinnsla umsókna muni taka sinn tíma en ríkisskattstjóri á að birta niðurstöðu um útreikning leiðréttingar með rafrænum hætti fyrir umsækjanda þegar hún liggur fyrir.

Samkvæmt frumvarpi um skuldaleiðréttinguna er ríkisskattstjóra heimilt að afla nauðsynlegra upplýsinga við afgreiðslu umsóknar, svo sem frá umboðsmanni skuldara, lánastofnunum, öðrum lánveitendum, sýslumönnum og Þjóðskrá Íslands, óháð þagnarskyldu þessara aðila.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×