Viðskipti innlent

Kærir úrskurð Héraðsdóms í Aserta-málinu

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
Málinu var vísað frá vegna óskýrleika í ákæru sérstaks saksóknara.
Málinu var vísað frá vegna óskýrleika í ákæru sérstaks saksóknara.
Embætti sérstaks saksóknara hefur ákveðið að kæra frávísun Héraðsdóms í Aserta-málinu svokallaða til Hæstaréttar.

Þetta staðfestir Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari í samtali við Vísi. „Við vorum ekki sammála niðurstöðu Héraðsdóms og höfum ákveðið að kæra til Hæstaréttar og fá úrskurð þar.“

Á föstudaginn vísaði Héraðsdómur frá ákæru sérstaks saksóknara á hendur fyrrum handboltamanninum Markúsi Mána Michaelsyni og þremur öðrum sem var gefið að sök að hafa brotið gróflega gegn lögum um gjaldeyrisviðskipti.

Málinu var vísað frá vegna óskýrleika í ákæru sérstaks saksóknara. Fjórmenningunum var gefið að sök að hafa stundað viðskipti með krónur á aflandsmarkaði í gegnum eignarhaldsfélagið Aserta fyrir rúmlega 14 milljarða króna á árinu 2009 og hafa þannig hagnast um meira en 600 milljónir króna.

Samkvæmt heimildum fréttastofu er ástæðan fyrir því að ekki var hægt að halda ákærunni til streitu að því er varðar brot á gjaldeyrishöftum sú að reglur um gjaldeyrismál voru settar án staðfestingar viðskiptaráðherra eins og lög um gjaldeyrisviðskipti kváðu á um og því sé ekki hægt að byggja refsingu á reglunum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×