Viðskipti innlent

Kári stefnir lögmanninum sínum

Fanney Birna Jónsdóttir skrifar
Kári Stefánsson og Karl Axelsson.
Kári Stefánsson og Karl Axelsson.
Kári Stefánsson hefur stefnt lögmanninum Karli Axelssyni. Ástæðan er sú að Kári vill fá hnekktum úrskurði sem úrskurðarnefnd Lögmannafélagsins kvað upp um þóknun sem Karl Axelsson vill fá greidda fyrir störf sín fyrir Kára. Vb.is greinir frá þessu.

Áður hafði Lex lögmannsstofa, en Karl er meðal eiganda á stofunni, fengið veð í húsnæði Kára vegna ógreiddra reikninga.

Kári hafði neitað að greiða reikninga frá Lex þar sem hann taldi þá of háa. Reikningurinn mun hafa hljóðað upp á tæpar 2 milljónir króna.

Kári hefur staðið í deilum, meðal annars fyrir dómstólum, vegna byggingu húss hans við Fagraþing í Kópavogi. Karl hefur þar komið fram fyrir hönd Kára.

Kári skaut deilunni um upphæð reikninga Lex til úrskurðanefndar Lögmannafélagsins sem úrskurðaði Lex í vil sem síðan leiddi til þess að sýslumaður gerði fjárnám í húsinu við Fagraþing. 

Greint var frá því í lok janúar að Kári hefði höfðað mál gegn Lex til að fá fjárnámskröfunni hnekkt og hefur nú einnig höfðað mál gegn Karli Axelssyni persónulega til að fá niðurstöðu úrskurðanefndarinnar hnekkt, þannig að reikningurinn verði lækkaður.

Hús Kára við Fagraþing í Kópavogi er 570 fermetrar að stærð, á tveimur hæðum og hljóðar fasteignamatið upp á 129 milljónir króna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×