Innlent

Seldi stolinn hvolp á bland.is

Jóhannes Stefánsson skrifar
Ætlar líklega að kæra þjófnaðinn til lögreglu.
Ætlar líklega að kæra þjófnaðinn til lögreglu.
„Ég gleymdi að setja í lás bakdyrameginn þegar ég fór og sótti dóttur mína í skólann. Þegar ég kom til baka hafði einhver farið inn um dyrnar og stolið chihuahua hvolp sem tíkin mín hafði nýlega átt," segir Ásta Ruth Ísleifsdóttir. „Ég var viti mínu fjær að leita að hvolpinum. Þetta eru svo litlir hundar að ég hélt hann hefði kannski troðið sér einhversstaðar á bakvið og leitaði hátt og lágt," bætir hún við.

Ásta fékk síðan ábendingu um að verið væri að auglýsa chihuahua hvolp til sölu á vefsíðunni bland.is. Þegar hún kíkti á auglýsinguna kom í ljós að um var að ræða hvolpinn sem hún átti, sem sást á mynd. „Ég kannaðist við símanúmerið á seljandanum, það kom í ljós að þetta var kona sem ég þekki," segir Ásta.

Við nánari eftirgrennslan kom í ljós að hvolpurinn var seldur. „Hvolpurinn var keyptur og fór í flugi til Akureyrar, til kaupandans. Þau sem keyptu hann eru búin að hafa samband við mig. Við erum að finna bestu lausnina, því þau eru alveg jafn mikil fórnarlömb og ég," segir Ásta. „Ef allt gengur að óskum verður hvolpurinn líklegast hjá þeim. Við erum bara að finna út úr þessu núna," bætir hún við.

Aðspurð segir Ásta að hún muni líklegast kæra þjófnaðinn til lögreglu.

Veri á varðbergi gagnvart þýfi

Fréttastofu hefur að undanförnu borist fjöldi ábendinga um sölu á meintu þýfi á bland.is og á öðrum síðum á netinu. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu segir að það komi ítrekað upp að fólk kaupi óafvitandi þýfi á netinu og brýnir fyrir fólki að sannreyna að vörurnar séu ekki stolnar, til dæmis með því að fara fram á að seljandi sýni kvittun fyrir vörunni.

Sé það ekki gert eiga kaupendur á hættu á því að vörur séu teknar úr höndum þeirra og komið í hendur upphaflegra eigenda. Lögregla bendir einnig á að öflugasta vörnin gegn þjófnuðum sé að koma í veg fyrir viðskipti með stolnar vörur, enda sé þá lítill sem enginn fjárhagslegur ávinningur af því að stela.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×