Viðskipti innlent

Rannsóknarsetur verslunarinnar verður sjálfseignarstofnun

Haraldur Guðmundsson skrifar
Rannsóknasetur verslunarinnar var stofnað árið 2004 að frumkvæði fyrirtækja í verslun og hefur því á þessu ári verið starfrækt í 10 ár.
Rannsóknasetur verslunarinnar var stofnað árið 2004 að frumkvæði fyrirtækja í verslun og hefur því á þessu ári verið starfrækt í 10 ár. Mynd/Vilhelm.
Rannsóknasetur verslunarinnar hefur verið gert að sérstakri sjálfseignarstofnun og rekstur hennar verður aðskilinn frá Háskólanum á Bifröst. Setrið hefur hingað til verið rekið sem eining innan háskólans.  

Þeir sem standa að stofnun sjálfseignarstofnunarinnar eru Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, Háskólinn á Bifröst, Samtök verslunar og þjónustu, VR, Kaupmannasamtök Íslands og Bílgreinasambandið. Formaður stjórnar er Vilhjálmur Egilsson rektor Háskólans á Bifröst. 

„Rannsóknasetur verslunarinnar var stofnað árið 2004 að frumkvæði fyrirtækja í verslun og hefur því á þessu ári verið starfrækt í 10 ár. Mikil gagnasöfnun og úrvinnsla hagtalna hefur átt sér stað á þessum tíma eins og sjá má á heimasíðu Rannsóknasetursins, www.rsv.is. Auk mánaðarlegrar birtingar á veltuvísitölu helstu flokka smásöluverslunar má nefna reglulega birtingu á heimsmarkaðsverði á hrávöru og birtingu á sundurliðaðri greiðslukortaveltu erlendra ferðamanna hér á landi. Auk þess eru stundaðar rannsóknir og úttektir á fjölmörgum sviðum verslunar og þjónustu og gefnar út hagtölur um þróun í greininni.

Atvinnutengdar rannsóknir á Íslandi snúa mestmegnis að framleiðslu- og tæknigreinum, enda um að ræða greinar sem skipta miklu máli við tekjuöflun þjóðarinnar. Hins vegar hefur minni áhersla verið lögð á rannsóknir tengdar þjónustugreinum eins og verslun. Þó skiptir sú atvinnugrein síst minna máli þegar horft er til þjóðarhags. Öll hagkvæmni í verslun og viðskiptum leiðir af sér hagræðingu, sparnað, aukin gæði, lægri útgjöld fyrir neytendur og auka atvinnusköpun. Þess vegna er alveg jafn mikilvægt að hlúa að fagmennsku í verslun og eins og framleiðslu.

Auk þeirra verkefna sem RSV stundar núna verður á næstunni lögð aukin áhersla á verkefni sem snerta ferðaþjónustu, enda eru verslun og ferðaþjónustu samofin.  Meðal annarra verkefna á nýju ári má nefna rannsókn á íslenskri netverslun, starfsmenntamál verslunarfólks auk útgáfu á Árbók bílgreina," segir í tilkynningu Rannsóknarsetursins. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×