Viðskipti innlent

VÍS útvistar tækniþjónustu til Reiknistofu Bankanna hf.

Fanney Birna Jónsdóttir skrifar
Sigrún Ragna Ólafsdóttir forstjóri VÍS og Friðrik Þór Snorrason forstjóri Reiknistofu Bankanna skrifa undir samninginn.
Sigrún Ragna Ólafsdóttir forstjóri VÍS og Friðrik Þór Snorrason forstjóri Reiknistofu Bankanna skrifa undir samninginn.
VÍS hefur, að undangengnu útboði, samið við Reiknistofu Bankanna hf. um að annast alrekstur á öllum miðlægum tölvukerfum félagsins til næstu fimm ára. 

Í tilkynningu frá Reikistofunni segir að með þessu tryggi hún VÍS aðgang að mjög öflugu tvöföldu tækniumhverfi og nær samningurinn meðal annars til  reksturs sýndarnetþjóna, gagnaafritunar, netlags, eldveggja, og öryggismála.  Samningurinn felur í sér þá nýjung að VÍS fær sjálfsafgreiðslu að tölvuskýsumhverfi Reiknistofunnar sem einfaldar daglegan rekstur og ferla í hugbúnaðarþróun.

Í tilkynningunni er haft eftir Sigrúnu Rögnu Ólafsdóttur forstjóra VÍS sem segir samninginn stefnumótandi fyrir VÍS, enda tryggi hann félaginu aukið rekstraröryggi og sveigjanleika í rekstri.

„Með því að útvista þessari þjónustu mun VÍS lækka UT kostnað sinn til lengri tíma og getur auk þess einblínt enn frekar á kjarnastarfsemi sína sem er tryggingastarfsemi.   Með samningi við RB fer VÍS í samstarf við aðila sem veitir tækniþjónustu  sem er sérsniðin að þörfum og kröfum fjármála- og tryggingafyrirtækja,“ segir Sigrún í tilkynningunni.

Friðrik Þór Snorrason forstjóri Reiknistofu Bankanna segir í tilkynningunni að samningurinn sé mikilvæg viðurkenning á því uppbyggingarstarfi sem átt hefur sér stað hjá félaginu undanfarin ár.

 „RB hefur um áratuga skeið sérhæft sig í hönnun og rekstri tæknilausna fyrir fjármálafyrirtæki. Undanfarin misseri hefur félagið eflt til muna þjónustuframboð sitt á sviði alrekstrarþjónustu og er markmið félagsins að verða alhliða þjónustumiðstöð fyrir fjármála- og tryggingarfyrirtæki.  Rekstrar- og gagnaöryggi er grunnforsenda allrar þjónustu fjármála- og tryggingarfyrirtækja. RB hefur því lagt metnað sinn í að vinna eftir vottuðum ferlum og er m.a. með ISO 27001 vottun fyrir stjórnkerfi upplýsingatæknikerfa og PCI-DSS vottun fyrir öryggi kortagagna,“ segir Friðrik í tilkynningunni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×