Brooklyn vann á heimavelli, 102-98, en Golden State hafði fram að því unnið tíu leiki í röð. Það var lengsta sigurganga liðsins frá 1975 en liðið var bara einum sigri frá félagsmetinu.
Kevin Garnett fór mikinn í lokaleikhlutanum og skoraði þá ellefu af þrettán stigum hans í leiknum. Hann fór svo langt með að gera út um leikinn með því að komast inn í sendingu Stephen Curry á lokamínútu leiksins.
Brooklyn hefur unnið alla leiki sína á árinu og liðið hefur ekki áður unnið fjóra leiki í röð á tímabilinu til þessa. Curry skoraði 34 stig fyrir Golden State í leiknum.
Atlanta vann Indiana, 97-87, en síðarnefnda liðið heldur þrátt fyrir tapinu efsta sæti Austurdeildarinnar. Kyle Korver skoraði sautján stig fyrir Atlanta og Pero Antic var með sextán.
Indiana hefur ekki unnið í Atlanta síðan 2006 og hefur nú tapað tólf leikjum í röð þar í borg. Þetta var þó fjórði leikur Indiana á síðustu fimm dögum og þreytumerkin á liðinu augljós.
Paul George skoraði 28 stig fyrir Indiana sem skoraði aðeins tólf stig í fyrsta leikhlutanum og 32 í fyrri hálfleik.
San Anotonio er nú eitt í efsta sæti Vesturdeildarinnar eftir sigur á Dallas, 112-90, þar sem að Oklahoma City spilaði ekki í nótt. Tony Parker var með 25 stig í öruggum sigri San Antonio.
Houston vann LA Lakers, 113-99, en síðarnefnda liðið hefur nú tapað þremur leikjum í röð og er í þriðja neðsta sæti vesturdeildarinnar.
Úrslit næturinnar:
San Antonio - Dallas 112-90
Toronto - Detroit 112-91
Atlanta - Indiana 97-87
Brooklyn - Golden State 102-98
New Orleans - Washington 96-102
Houston - LA Lakers 113-99
Minneosta - Phoenix 103-104
Portland - Orlando 110-94
LA Clippers - Boston 111-105