Skoðun

Hugmyndasamkeppni um rammaskipulag Elliðaárvogar-Ártúnshöfða

Erla Margrét Gunnarsdóttir skrifar
Hugmyndasamkeppni við skipulagsgerð er góð leið til að fá fram fjölbreyttar hugmyndir um skipulag og notkun svæðis. Hugmyndasamkeppnir laða að mismunandi fólk með víðtæka reynslu og margvíslegar hugmyndir.

Fyrir um tveimur vikum auglýsti umhverfis- og skipulagssvið Reykjavíkur hugmyndasamkeppni um rammaskipulag Elliðaárvogar-Ártúnshöfða. Undirrituð fagnar því að Reykjavíkurborg skuli leita eftir ólíkum hugmyndum við skipulagsgerð borgarinnar en setur að sama skapi spurningamerki við tilhögun samkeppninnar. Hugmyndasamkeppnin um rammaskipulag Elliðaárvogar-Ártúnshöfða er svokölluð lokuð samkeppni.

Nú er nýlokið fyrsta fasa keppninnar, svokölluðu forvali. Forvalið byggist þannig upp að áhugasamir þátttakendur senda inn upplýsingar um teymið sem hyggst vinna tillöguna. Teymið þarf að byggjast upp af fagfólki úr mismunandi stéttum. Að forvali loknu verða fimm teymi valin sem öll fá greitt fyrir sínar tillögur, vinningsteymið fær síðan aukalega greitt fyrir sína tillögu. Þessi fimm teymi eru valin út frá stigagjöf og byggist stigagjöf sú á þátttöku og árangri í samkeppnum á síðustu 15 árum. Teymin með hæstu stigin eru valin til þátttöku.

Opnar keppnir

Þetta telur undirrituð ekki vera til þess fallið að fá sem flestar og áhugaverðastar hugmyndir að borðinu. Að mati undirritaðrar ættu hugmyndasamkeppnir á vegum borgarinnar og annarra opinberra aðila að vera opnar hugmyndasamkeppnir. Í opnum samkeppnum getur hver sem er sent inn tillögu, þótt auðvitað sé hægt að gera kröfu um fagþekkingu en allir koma að borðinu með jöfn tækifæri. Lokaðar hugmyndasamkeppnir sem þessi útiloka bæði nýútskrifaða skipulagsfræðinga, unga óreynda þátttakendur í öðrum stéttum sem og þá sem hafa verið lengi í greinunum en ekki tekið þátt í hugmyndasamkeppnum á síðustu fimmtán árum. Í opinni hugmyndasamkeppni hafa allir innan greinanna jöfn tækifæri og er teymið dæmt á verkinu sjálfu en ekki öðrum unnum verkefnum. Þannig væri hægt að velja áhugaverðustu tillögurnar og greiða þeim efstu fyrir áframhaldandi vinnu.

Illa ígrundað skipulag getur haft víðtæk áhrif til langs tíma og að sama skapi getur vel skipulagt svæði stuðlað að bættri líðan og umfram allt góðri byggð. Höfundur er nýútskrifaður skipulagsfræðingur og formaður Skipulagsfræðingafélags Íslands. Nýútskrifaðir skipulagsfræðingar hafa margt til málanna að leggja og því þykir undirritaðri að opin hugmyndasamkeppni væri betur til þess fallin að fá fleiri góðar hugmyndir þegar verið er að skipuleggja borgina til framtíðar.

Undirrituð hvetur því Reykjavíkurborg til að hafa þessi atriði í huga þegar kemur að næstu hugmyndasamkeppni. Einnig setur undirrituð spurningamerki við það að enginn skipulagsfræðingur sitji í forvalsnefnd og hvetur til þess að horft verði til fagþekkingar þegar valið er í dómnefnd og þar verði að minnsta kosti einn skipulagsfræðingur.




Skoðun

Sjá meira


×