Viðskipti innlent

Spá 7 til 8 prósenta hækkun á fasteignamarkaði

Heildarvelta á fasteignamarkaði á höfuðborgarsvæðinu nam rúmum 190 milljörðum króna í fyrra og jókst um tæpa 30 milljarða milli ára. Hátt í 6 þúsund kaupsamningum var þinglýst og hafa ekki verið fleiri frá því fyrir hrun.

Þjóðskrá Íslands hefur tekið saman lykiltölur um þróun fasteignamarkaðar á síðasta ári. Um 5.700 kaupsamningum var þinglýst á höfuðborgarsvæðinu í fyrra sem er um 7 prósenta aukning milli ára. Fjöldinn hefur ekki verið meiri frá því fyrir hrun.

Heildarveltan nam 191 milljarði og jókst um 27 milljarða frá fyrra ári.

Þó markaðurinn sé á uppleið er hann enn helmingi minni en hann var á árunum fyrir hrun sé miðað við fjölda þinglýstra kaupsamninga. Árið 2007 var rúmlega 10 þúsund kaupsamningum þinglýst og árið 2004 voru þeir 10.116 talsins.

Regína Bjarnadóttir forstöðumaður Greiningar Arionbanka segir viðbúið að fasteignaverð muni hækka á næstu árum.

„Við sjáum fyrir okkur að það sé innistæða fyrir hækkunum á næstu tveimur árum. Við erum að spá 7 til 8 prósenta hækkun á ári sem er knúin áfram af aukinni eftirspurn,“ segir Regína.

Hún segir að nýjar kynslóðir séu að koma inn á fasteignamarkað og það muni meðal annars valda aukinni eftirspurn.

„Skuldastaða heimila hefur haldið áfram að batna og þeim fer fækkandi sem eru með neikvæða eiginfjárstöðu. Þannig að við gerum ráð fyrir að það verði áframhaldandi hækkanir á næstu árum,“ segir Regína.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×