Innlent

„Markmiðið að styrkja byggðina í Hrísey“

Sveinn Arnarsson skrifar
Hrísey Akureyrarbær hefur tryggt sér forkaupsrétt á aflaheimildum í eynni.
Hrísey Akureyrarbær hefur tryggt sér forkaupsrétt á aflaheimildum í eynni. mynd/Anna Tryggvadóttir
Á fundi bæjarráðs Akureyrar síðastliðinn fimmtudag var samþykkt samkomulag við K&G fiskverkun í Sandgerði um forkaupsrétt á aflaheimildum í Hrísey. Forsaga málsins er sú að K&G fiskverkun keypti allar eignir fyrirtækisins Hvamms í Hrísey í maí síðastliðnum. Í febrúar sagði Hvammur upp öllum starfsmönnum sínum og áformaði að loka vinnslu sinni í eynni. Fimmtán starfsmenn unnu hjá fyrirtækinu og hefði þetta þýtt mikla blóðtöku í atvinnulífinu í eynni.

Inga Þöll Þórgnýsdóttir, bæjarlögmaður Akureyrarkaupstaðar, segir að þetta samkomulag sé góð niðurstaða fyrir sveitarfélagið. „Samkomulagið snýr að því að ef K&G ákveður að selja aflaheimildir sínar í eynni eða flytja þær annað hefur Akureyrarkaupstaður forkaupsrétt á aflaheimildunum.“

Eiríkur Björn Björgvinsson, bæjarstjóri á Akureyri, telur meginmarkmiðið vera að efla byggð í eynni og að þetta hafi verið eitt skref í þeirri vegferð.

„Þetta samkomulag er þannig að við tryggjum okkur forkaupsréttinn. Ákveðin umræða fór af stað í þjóðfélaginu eftir hagræðingaraðgerðir Vísis í Grindavík og við vildum vera viss um að þetta myndi ekki henda í Hrísey,“ segir Eiríkur Björn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×