Handbolti

Ungverjar stungu af í seinni hálfleik

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / AFP
Ungverjaland og Króatía tryggðu sér sæti í fjórðungsúrslitum HM í handbolta í síðari leikjum kvöldsins á Spáni.

Króatar fóru létt með Hvíta-Rússland, 33-24, en þeir kláruðu leikinn í fyrri hálfleik. Staðan að honum loknum var 21-9.

Luka Stepancic var markahæstur í liði Króata með sex mörk en fjórir leikmenn voru efstir og jafnir með fjögur mörk hjá Hvíta-Rússlandi.

Meiri spenna var framan af í leik Ungverjalands og Póllands, þar sem staðan var 10-9 í hálfleik. En Ungverjar tóku svo öll völd í síðari hálfleik og áttu Pólverjar engin svör, hvort sem er í vörn eða sókn.

Svo fór að Ungverjar unnu átta marka sigur, 27-19. Gergo Ivancsik skoraði sex mörk og Roland Mikler varði tólf skot í marki Ungverja. Markahæstur hjá Póllandi var Bartosz Jurecki með fimm mörk.

Ungverjar mæta nú Dönum í fjórðungsúrslitum en Króatar fá það verkefni að mæta heims- og Ólympíumeisturum Frakklands.

Úrslit, staða og næstu leikir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×