Viðskipti innlent

Sjónvörp hjá Elko á Íslandi mun dýrari en á hinum Norðurlöndunum

Sylvia Briem skrifar
Mikill verðmunur er á sjónvörpum úr raftækjakeðjunni Elko á Íslandi og í hinum Norðurlöndunum. Vörustjóri Elko segir að mismunurinn sé til kominn vegna tolla, vörugjalda og virðisaukaskatts.

Í lauslegum verðsamanburði Vísis kom í ljós að munurinn getur verið allt að 130 þúsund krónur. Tekin voru dæmi um Samsung og Philips sjónvörp sem kosta hér á landi 319.995 krónur. Í Svíþjóð fást alveg eins sjónvörp á tæplega 190 þúsund krónur og í Danmörku á um 195 þúsund krónur.

Guðjón Júlíusson, vörustjóri sjónvarps- og hljómtækjadeildar Elko á Íslandi segir að raftækjakeðjan fari í mismunandi söluherferðir og þá eigi einnig eftir að reikna tolla, virðisaukaskatt og vörugjöld. 

Þegar upp er staðið er ríkið að fá ansi háa upphæð af hverju seldu sjónvarpi til sín, þetta er eitthvað sem við vonumst að sjálfsögðu til stjórnvöld hér á landi lagi til þess að við getum verið samkeppnishæf við aðrar verslanir í Evrópu.

Samkvæmt útreikningum á heimasíðu tollsins fer u.þ.b. þriðjungur af verðinu til ríkisins. 

Ef þú kaupir sjónvarpið út úr búð frá Norðurlöndunum og flytur það heim til Íslands, er það að enda í kringum 320 - til 350 þúsund krónur.

Taka verður með í reikninginn að Elko verslunin hér á landi kaupir sjónvarpið á heildsöluverði.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×