Handbolti

Slóvenar með fjórða sigurinn í röð

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/AFP
Slóvenar eru áfram með fullt hús í C-riðli á HM í handbolta eftir eins marks sigur á Hvít-Rússum, 27-26, í dag. Þetta var annar eins marks sigur slóvenska liðsins í röð því liðið vann Pólland 25-24 á þriðjudagskvöldið.

Dragan Gajic skoraði átta mörk fyrir Slóveníu og þeir Jure Dolenec og Sebastian Skube voru með fjögur mörk hvor. Siarhei Rutenka var markahæstur hjá Hvíta-Rússlandi með níu mörk.

Hvít-Rússar voru fimm mörkum yfir í hálfleik, 17-12, og marki yfir, 26-25, þegar fjórar mínútur voru eftir.

Slóvenar héldu marki sínu hinsvegar hreinu síðustu fjórar mínúturnar, Uros Zorman jafnaði metin og Dragan Gajic skoraði síðan sigurmarkið af vítalínunni þegar 40 sekúndur voru til leiksloka.

Hvít-Rússar köstuðu síðan boltanum frá sér í lokasókn sinni og Slóvenar fögnuðu enn einum sigrinum á HM.

Hvíta-Rússland, sem er með Íslandi í riðli í undankeppni EM 2014, er bara búið að vinna 1 af 4 leikjum en á eftir leik á móti Sádí-Arabíu sem ættu að vera tvö örugg stig í húsi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×