Handbolti

Guðjón Valur tók markametið af Ólafi Stefáns

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Guðjón Valur Sigurðsson.
Guðjón Valur Sigurðsson.
Guðjón Valur Sigurðsson, fyrirliði íslenska handboltalandsliðsins, átti mjög flottan leik á móti Katar á HM á Spáni í gær og var ekki bara markahæsti maðurinn í íslenska liðinu því hann skrifaði einnig nafn sitt í sögubækurnar.

Guðjón Valur gerði það þegar hann skoraði sitt 128. mark á heimsmeistaramóti og varð sjötti handboltamaðurinn sem eignast metið yfir flest mörk Íslendings á HM í handbolta. Guðjón Valur sló met Ólafs Stefánssonar sem hefur þó tekið þátt í einu heimsmeistaramóti meira en Guðjón. Guðjón bætti við sjö mörkum og endaði sem markahæsti leikmaður íslenska liðsins í leiknum.

5,6 mörk að meðaltali í leik

Guðjón Valur er að taka þátt í sinni sjöttu heimsmeistarakeppni en hann hefur spilað alla leiki Íslands í úrslitakeppni HM frá því á HM í Frakklandi fyrir tólf árum. Hann hefur skorað mörkin 235 í 44 HM-leikjum eða 5,6 mörk að meðaltali í leik. Ólafur skoraði sín 127 mörk í 54 leikjum eða 4,2 mörk að meðaltali í leik.

Ólafur Stefánsson var búinn að eiga HM-markametið í heilan áratug en hann tók það af Patreki Jóhannessyni í lokaleik Íslands á HM í Portúgal 2003. Ólafur bætti við 106 mörkum áður en hann lék sinn síðasta leik á HM fyrir tveimur árum en ekkert varð af því að hann spilaði með á Spáni.

Patrekur átti metið styst eða aðeins í nokkra daga því hann sló met Valdimars Grímssonar í öðrum leik liðsins á HM í Portúgal. Patrekur var hins vegar sá leikmaður sem braust fyrstur yfir hundrað marka múrinn en það gerði hann í leik á móti gestgjöfum Portúgals eða í næsta leik á eftir að hann tók metið af Valdimar.

Guðjón Valur er eini Íslendingurinn sem orðið hefur markakóngur HM, en því náði hann á heimsmeistaramótinu í Þýskalandi 2007. Guðjón Valur skoraði þá 66 mörk í tíu leikjum, 6,6 mörk að meðaltali í leik.

Markamet Íslendings á HM í handboltaGunnlaugur Hjálmarsson (1958-1990) 49 mörk

HM 1958 (16 mörk) - 16 mörk samanlagt

HM 1961 (22) - 38

HM 1964 (11) - 49

Missti metið: 3. mars 1990

Kristján Arason (1990-1997) 65 mörk

HM 1986 (41 mark) - 41 mark samanlagt

HM 1990 (24) - 65

Missti metið: 22.maí 1997

Valdimar Grímsson (1997-2003) 95 mörk

HM 1990 (5 mörk) - 5 mörk samanlagt

HM 1993 (4) - 9

HM 1995 (34) - 43

HM 1997 (52) - 95

Missti metið: 24.janúar 2001

Patrekur Jóhannesson (2003) 121 mark

HM 1993 (7 mörk) - 7 mörk samanlagt

HM 1995 (16) - 23

HM 1997 (40) - 63

HM 2001 (25) - 88

HM 2003 (33) - 121

Missti metið: 2. febrúar 2003

Ólafur Stefánsson (2003-2013) 227 mörk

HM 1995 (11 mörk) - 11 mörk samanlagt

HM 1997 (26) - 37

HM 2001 (32) - 69

HM 2003 (58) - 127

HM 2005 (25) - 152

HM 2007 (53) - 205

HM 2011 (22) - 227

Missti metið: 18. janúar 2013

Guðjón Valur Siguðrsson (2013-) 235 mörk

HM 2001 (15 mörk) - 15 mörk samanlagt

HM 2003 (39) - 54

HM 2005 (31) - 85

HM 2007 (66) - 151

HM 2011 (47) - 198

HM 2013 (37) - 235




Fleiri fréttir

Sjá meira


×