Viðskipti innlent

Toyota selur 15% minna

Freyr Bjarnason skrifar
Sala á Toyota-bílum hefur dregist saman um tæp fimmtán prósent á þessu ári.
Sala á Toyota-bílum hefur dregist saman um tæp fimmtán prósent á þessu ári. Fréttablaðið/Pjetur
Þrátt fyrir að bílaumboðið Toyota selji flesta nýskráða fólksbíla á Íslandi dróst salan á Toyota-bílum saman um 14,8 prósent fyrstu ellefu mánuði ársins, samanborið við sama tímabil í fyrra.

Alls seldust 1.109 nýir Toyota-bílar í byrjun ársins til 30. nóvember síðastliðinn samanborið við 1.302 bíla í fyrra, samkvæmt tölum frá Umferðarstofu.

Volkswagen selur næstflesta nýskráða bíla á landinu en þar var einnig samdráttur upp á 8,7 prósent. Þriðja vinsælasta tegund landsins er Skoda. Þar seldust 708 bílar fyrstu ellefu mánuðina, sem er 5,8 prósenta aukning.

Mestur samdráttur var í sölu á Peugeot-bílum á árinu, eða tæplega 66 prósent. Alls seldust 47 bílar samanborið við 138 í fyrra. Þar á eftir kemur Mitsubishi með 62 prósenta samdrátt.

Sala á lúxusbílunum Benz og BMW jókst töluvert á árinu. Aukningin hjá Benz nam 11,6 prósentum og hjá BMW um 32 prósentum. Athygli vekur söluaukningin á Dacia-sportjeppum. 122 slíkir seldust fyrstu ellefu mánuðina á þessu ári miðað við tíu í fyrra og nemur aukningin 1.120 prósentum

Heildarskráning nýskráðra fólksbíla á tímabilinu var 6.984 stykki, sem er 5,4 prósentum minna en á sama tíma í fyrra.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×