Viðskipti innlent

Launin forstjóra Íbúðalánasjóðs hækka um 79 þúsund

Brjánn Jónasson skrifar
Laun Sigurðar Erlingssonar, forstjóra Íbúðalánasjóðs hafa hækkað um 19,3 prósent frá árinu 2010.
Laun Sigurðar Erlingssonar, forstjóra Íbúðalánasjóðs hafa hækkað um 19,3 prósent frá árinu 2010.
Laun forstjóra Íbúðalánasjóðs hækka um rúmlega 79 þúsund krónur á mánuði, eða um 7,2 prósent, í kjölfar nýlegrar ákvörðunar kjararáðs.

Laun forstjórans voru rúmlega 982 þúsund krónur á mánuði frá árinu 2010 þar til kjararáð ákvað um mitt ár 2012 að hækka þau um 110 þúsund krónur, í 1.092 þúsund krónur á mánuði.

Sigurður Erlingsson, forstjóri Íbúðalánasjóðs, taldi þessa hækkun ekki endurspegla auknar kröfur sem gerðar voru til forstjóra sjóðsins. Hann sendi kjararáði bréf skömmu eftir að laun hans voru hækkuð um mitt ár 2012 og fór fram á að launin yrðu endurskoðuð.

Sigurður benti meðal annars á að nú hafi verið lögfestar kröfur um forstjóri skuli vera fjárhagslega sjálfstæður, hafa lokið háskólaprófi auk þess sem forstjórinn þurfi að standast hæfismat Fjármálaeftirlitsins. Í bréfinu segir Sigurður að ekki standist að laun forstjórans miðist við launakjör framkvæmdastjóra Lánasjóðs íslenskra námsmanna eða forstjóra Byggðastofnunar.

Kjararáð tekur í úrskurði sínum að nokkru undir þetta með forstjóranum. Ákveðið var að hækka laun hans í 1.171 þúsund krónur á mánuði, og launin því hækkað um 189 þúsund krónur, 19,3 prósent, frá árinu 2010.

Í umsögn stjórnar Íbúðalánasjóðs er tekið undir kröfur forstjórans. Í umsögn velferðarráðuneytisins er því hins vegar hafnað að auknar kröfur leiði til aukins álags á forstjórann, og þar með því að hækka þurfi laun Sigurðar umfram það sem þegar hafi verið gert.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×