Innlent

Sautján ára þreyta á snjómokstrinum

Freyr Bjarnason skrifar
Hér má sjá gangstéttina sem Hrafn gengur eftir til og frá vinnu. Hér hefur snjónum verið mokað í burtu árla dags. Síðar um daginn er honum mokað aftur upp á stéttina.
Hér má sjá gangstéttina sem Hrafn gengur eftir til og frá vinnu. Hér hefur snjónum verið mokað í burtu árla dags. Síðar um daginn er honum mokað aftur upp á stéttina.
„Ég er kominn með sautján ára þreytu á þessu,“ segir Hrafn Heiðdal Úlfsson, íbúi í Barðavogi í Reykjavík.

Hrafn gengur á hverjum morgni í vinnuna, innan við eins kílómetra leið. Þá hafa bæjarstarfsmenn iðulega lokið við að moka snjó af gangstéttinni. Þegar hann snýr aftur heim á leið seinna um daginn hefur snjómoksturstæki mokað snjónum aftur upp á gangstéttina af götunni og þarf hann þá að labba á götunni, sem allir vita að er stórhættulegt.

„Þetta er búin að vera sama sagan með moksturinn frá því ég flutti í hverfið fyrir sautján árum. Ég hef hringt nokkrum sinnum en hef ekki gert það síðastliðin tvö ár, ég hef bara gefist upp á þessu. Svo ofbauð mér þegar ég var að labba í gærmorgun [þriðjudagsmorgun],“ segir Hrafn, ósáttur við gang mála. „Þegar ég labbaði klukkan tíu mínútur fyrir níu sá ég að það var búið að moka gangstéttina. Ég hló inni í mér því ég vissi hvernig þetta yrði þegar ég labbaði til baka. Svona er þetta bara ár eftir ár og þetta er á öllum þessum gangstéttum hérna í hverfinu hjá okkur.“

Hrafn, sem er á fimmtugsaldri, segist hafa fengið loðin svör hjá borgaryfirvöldum þegar hann hefur óskað eftir að gengið verði í málið. „Að athuga og skoða, það er mjög algengt svar,“ segir hann. „Ég bara skil ekki hvers vegna er verið að eyða skattpeningunum í svona bull. Ég vil bara að þetta verði lagað. Þetta er hluti af mínum skattpeningum og ég vil að þetta sé unnið skikkanlega.“

Hann segir að eldra fólk sem býr í hverfinu vogi sér ekki út úr húsi vegna ástandsins. „Það getur ekki labbað á götunni í hálkunni og ekki á gangstéttunum því þær eru verri heldur en áður en það var skafið. Það eru borgaðar fleiri milljónir á ári í þennan mokstur, sem er til einskis.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×