Lífið

Uppselt á tónleika tvítugra Borgardætra

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
Uppselt er á alla tónleika sveitarinnar fram að jólum.
Uppselt er á alla tónleika sveitarinnar fram að jólum.
„Jólafílingurinn kemur yfir mann á fyrstu æfingunni fyrir tónleikana á hverju ári,“ segir Andrea Gylfadóttir, ein þriggja söngkvenna í Borgardætrum, en sveitin er tvítug á þessu ári. „Við byrjuðum sumardaginn fyrsta 1993, þannig að við erum rúmlega tvítugar.“ Sveitin er nú mikið tengd við jólin, hjá mörgum er ferð á tónleika Borgardætra partur af jólaundirbúningnum.

„Ég myndi giska á að helmingur gesta okkar væri fastagestir sem koma ár eftir. Við þekkjum andlit í hópnum,“ segir Andrea en þessi hefð skapar ákveðið vandamál fyrir sveitina.

„Á hverju ári flytjum við ný lög. En það þýðir að við þurfum að sleppa öðrum eldri lögum. Undantekningarlaust kemur fólk til okkar sem vildi heyra eitthvað af þeim lögum sem við tókum ekki. En þetta er nauðsynlegt, ef við slepptum ekki eldri lögum yrðu tónleikarnir örugglega fimm klukkutímar að lengd,“ segir Andrea glettin. Sveitin varð svona nátengd jólunum árið 2000 þegar Jólaplata Borgardætra kom út.

Borgardætur gáfu út Jólaplötuna árið 2000 og eru nú stór hluti af jólaupplifun margra.
„Síðustu þrettán ár höfum við verið með jólatónleika. Það er mikill undirbúningur að baki svona tónleikum. Svona þríradda söng þarf að æfa vel ef hann á að hljóma fallega.“ 

Andrea segir að það hafi staðið til að gefa eitthvað út vegna tímamótanna en ekki gengið eftir. „Við vorum öll mjög upptekin í ár. Við gerum vonandi eitthvað á næsta ári.“ 

Borgardætur eiga eftir að halda þrenna tónleika fram að jólum á Café Rosenberg og uppselt er á þá alla. Með sveitinni leika Þorpsbúarnir: Eyþór Gunnarsson á píanó, Birgir Bragason á kontrabassa og Magnús Trygvason Eliassen á trommur. Tónleikar sveitarinnar hefjast klukkan 21 í kvöld.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.