Viðskipti innlent

Arctic Trucks útbúa brynvarða jeppa fyrir norsku sérsveitina

Þorgils Jónsson skrifar
Norska lögreglan nútímavæðir nú bílaflota sinn. Meðal annars hefur hún fengið afhenta ellefu jeppa, sérútbúna af íslenska fyrirtækinu Arctic Trucks.
Norska lögreglan nútímavæðir nú bílaflota sinn. Meðal annars hefur hún fengið afhenta ellefu jeppa, sérútbúna af íslenska fyrirtækinu Arctic Trucks. Mynd/Norska lögreglan
Íslenska fyrirtækið Arctic Trucks hefur getið sér gott orð víða um heim fyrir sérútbúnu jeppana sína og hefur meðal annars verið í fréttum nýlega vegna ferðar þar sem Harry Bretaprins var meðal þeirra sem fóru á suðurpólinn á bílum frá fyrirtækinu. Jeppar frá Arctic Trucks hafa einnig einnig farið á norðurpólinn. Eitt nýjasta verkefnið er í Noregi þar sem fyrirtækið afhenti nýlega lögreglu ellefu brynvarða Toyota Land Cruiser jeppa.

Herjólfur Guðbjartsson, framkvæmdastjóri viðskipta- og þróunarsviðs hjá Arctic Trucks, segir í samtali við Fréttablaðið að þarna sé lögreglan að mæta ákveðinni þörf með því að koma inn í rammasamning milli norska hersins og Arctic Trucks.

Herjólfur Guðbjartsson
„Lögreglan hefur verið að nútímavæða bílaflotann hjá sér síðustu ár eftir að hafa verið á frekar gömlum bílum. Hún leigir þarna bíla af hernum og fær sömu tegund af bílum, sem við tökum svo og lögum eftir sérstökum þörfum lögreglunnar, setjum meðal annars á þá blá blikkljós.“

Herjólfur segist, vegna trúnaðar, ekki geta farið náið út í tæknilega lýsingu á búnaðinum sem settur er upp í bílunum, en játar aðspurður að þeir séu gerðir til að þola byssuskot og sprengingar.

„Þessir bílar verða svo notaðir af sérsveit lögreglunnar í öllum umdæmum,“ segir Herjólfur og bætir við að herinn hafi notað bílana bæði í verkefnum innanlands og utan.

Síðustu tvö ár hefur Arctic Trucks útbúið tæplega 100 bíla fyrir herinn og lögregluna samkvæmt rammasamningnum. Sá hljómar upp á 230 milljónir norskra króna, hátt í fimm milljarða íslenskra króna, og er til tíu ára. Segir Herjólfur að gert sé ráð fyrir að breyta 200-300 bílum á næstu tveimur til þremur árum.

Arctic Trucks var stofnað sem aukahlutaþjónusta innan Toyota á Íslandi árið 1990 en hefur stækkað mikið að umfangi síðustu árin. Árið 2005 var fyrirtækið selt út úr Toyota, rekur nú dótturfyrirtæki í Noregi og Sameinuðu arabísku furstadæmunum og er með starfsemi enn víðar um heiminn og virðist ekkert lát vera á. „Við vorum að gera samstarfssamning við Toyota í Póllandi um að breyta bílum fyrir þá og það er mjög spennandi að koma íslensku hugviti inn í bílageirann,“ segir Herjólfur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×