Viðskipti innlent

Bréf Össurar hækkuðu mest

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Nasdaq OMX Iceland.
Nasdaq OMX Iceland. Fréttablaðið/Stefán
Gengi hlutabréfa Össurar hækkaði mest af félögum Kauphallarinnar eftir að uppgjör vegna þriðja ársfjórðungs var birt. Þetta kemur fram í umfjöllun Greiningar Íslandsbanka í gær.

„Öll félögin birtu uppgjör í lok október eða nóvember og hafði birtingin mismikil áhrif á gengi félaganna,“ segir í umfjölluninni í Morgunkorni bankans. Bréf Össurar hækkuðu um 3,9 prósent daginn eftir birtingu.

„Næstmest var hækkun bréfa í Vodafone, eða um 3,2 prósent, en segja má að með uppgjöri þriðja ársfjórðungs hafi félagið loksins fengið uppreisn æru eftir töluvert ýkt viðbrögð við slæmu uppgjöri á fyrsta ársfjórðungi.“

Bent er á að yfir nóvembermánuð hafi bréf Vodafone samtals hækkað um 4,8 prósent og hafi gengi félagsins staðið í 29,75 krónum á hlut í lok hans. „Í kjölfar árásar á vef félagsins um síðustu helgi lækkaði gengi félagsins hins vegar töluvert aftur og stendur nú í kringum 26 krónur á hlut.“

Um leið er bent á að gengi félagsins hafi hækkað verulega bæði í október og nóvember. Lækkunin nú í byrjun mánaðarins hafi ekki náð að þeirri hækkun að fullu.

Í umfjöllun Greiningar er jafnframt vísað í nýbirtar tölur Kauphallarinnar um veltu í nóvember. Hún nam tæpum 20 milljörðum króna, örlítið meiri en að jafnaði í september og október.

Mest viðskipti voru með bréf Icelandair, sem stóðu undir 31 prósenti veltunnar. Um leið bendir Greining Íslandsbanka á að bréf Marel hafi tekið „óvæntan kipp“ og félagið því með næstmesta veltu í Kauphöllinni þann mánuð.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×