Lífið

Hannar nútímalegt tréhús fyrir Dr. Dre

Ólöf Skaftadóttir skrifar
Gulla Jonsdottir
Gulla Jonsdottir
„Ég er að hanna nýja húsið hans Dr. Dre í Hollywood-hæðum en þaðan er útsýni yfir alla borgina. Þetta er mjög skemmtilegt – eitt af mínum uppáhaldsverkefnum um þessar mundir,“ segir Gulla Jónsdóttir, arkitekt, en hún rekur eigið fyrirtæki í Los Angeles þar sem hún hefur búið í yfir tuttugu ár.

„Húsið er að mestu byggt úr viði og verður eins og skúlptúr og teygir sig inn og í gegnum allt húsið. Ég kalla þetta nútímalegt tréhús,“ segir Gulla, létt í bragði.

Inngangurinn í tréhúsið
Gulla hefur síðastliðin ár sérhæft sig í hótelhönnun, og hefur það enn að aðalstarfi. 

„Núna er ég að hanna fyrir Thompson-hótelkeðjuna í Los Angeles og Marriott-keðjuna í Japan. Ég er líka að klára veitingastað fyrir Mondrian-hótelið á Bahamaeyjum og nýbúin að skila af mér verkefni fyrir W-hótelið í New York. Svo er ég listrænn stjórnandi fyrir hótel í Macao í Kína. Ég er líka í óðaönn að hanna hótel og heilsulind í eyðimörkinni hér í Kaliforníu. Það er skemmtilegt að því leyti að það er ekki ósvipað því að hanna á Íslandi, því landsvæðið situr á San Andreas-jarðskjálftalínunni, þar sem hrein heilsuvötn flæða allt um kring – dálítið svipað okkar stórbrotna umhverfi á Íslandi,“ segir Gulla, sem settist að í Los Angeles til að læra arkitektúr fyrir rúmlega tuttugu árum. 

Hún stundaði nám við Sci-Arc-skólann, sem var valinn besti arkitektaskóli í heimi í fyrra. 

„Eftir námið fékk ég vinnu hjá Richard Meier sem hjálpaði mér síðar að fá atvinnuleyfi í Bandaríkjunum og ég stofnaði stofuna mína. Hér hef ég verið síðan,“ segir hún glaðbeitt.

Húsið séð úr garðinum
Aðspurð segir Gulla ekkert verkefni of lítið fyrir sig. 

„Ég á mjög erfitt með að segja nei, því ég held að ég sé alin upp við að vera afskaplega kurteis,“ segir hún. 

„Mér finnst ég ennþá vera rétt að byrja minn feril, því það er svo margt spennandi framundan á draumastöðum út um allan heim. Bygging eftir mig á Íslandi er ennþá á markmiðalistanum!“ segir Gulla að lokum. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.