Innlent

Mikil ásókn í jafnlaunavottun VR

Brjánn Jónasson skrifar
Kynbundinn launamunur félaga í VR mælist enn hátt í 10 prósent, og hefur lítið breyst frá því í fyrra. Jafnlaunavottunin ætti að vera öflugt tæki til að berjast gegn launamuninum segir formaður VR.
Kynbundinn launamunur félaga í VR mælist enn hátt í 10 prósent, og hefur lítið breyst frá því í fyrra. Jafnlaunavottunin ætti að vera öflugt tæki til að berjast gegn launamuninum segir formaður VR. Fréttablaðið/Stefán
Jafnlaunavottun VR fer afar vel af stað, og hafa ellefu fyrirtæki og stofnanir þegar fengið jafnlaunavottun. Fimmtán til viðbótar eru í vottunarferlinu og á fimmta tug hafa sótt um að fá vottunina, segir Ólafía B. Rafnsdóttir, formaður VR.

„Þetta er gríðarlega góður árangur sem við höfum náð, en við viljum að sjálfsögðu halda áfram og erum að kynna þetta áfram fyrir fyrirtækjum og stofnunum,“ segir Ólafía. Fyrstu fyrirtækin fengu vottun í apríl síðastliðnum.

Ólafía B. Rafnsdóttir
Öll fyrirtæki og stofnanir geta sótt um að fá jafnlaunavottunina, óháð því hvort einhverjir starfsmenn eru í VR. Standist þau úttekt sem unnin er af alþjóðlega vottunarfyrirtækinu British Standard Institution og staðfestir að greidd séu jöfn laun fyrir jafn verðmæt störf fá þau vottunina. 

Gerður er þriggja ára samningur við vottunarfyrirtækið, og sérfræðingar þess heimsækja svo viðkomandi fyrirtæki eða stofnun á sex til tólf mánaða fresti til að fylgjast með. Ólafía segir skýrt að fyrirtæki og stofnanir geti misst jafnlaunavottunina standist þau ekki reglulegar skoðanir vottunarfyrirtækisins.

„Ég held að atvinnulífið hafi verið að bíða eftir þessu stjórntæki til að vinna eftir,“ segir Ólafía. Hún segir að árangurinn muni vonandi koma í ljós í launakönnun VR eftir tvö ár. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×