Viðskipti innlent

Spá því að álverð hækki á næsta ári

Haraldur Guðmundsson skrifar
Álverið í Straumsvík vinnur nú að því að auka framleiðslugetu sína úr 190 þúsund tonnum í 205 þúsund tonn.
Álverið í Straumsvík vinnur nú að því að auka framleiðslugetu sína úr 190 þúsund tonnum í 205 þúsund tonn.
Heimsmarkaðsverð á áli lækkaði í byrjun október um fjórtán prósentustig miðað við álverð í janúar á þessu ári.

„Miklar álbirgðir og áframhaldandi umframframleiðsla áls gera það að verkum að ólíklegt er að álverð hækki á næstu mánuðum,“ segir

Sigurður Ottó Þorvarðarson, hjá IFS-greiningu, en fyrirtækið birtir reglulega umfjöllin um ástandið á álmörkuðum.

Í síðustu umfjöllun fyrirtækisins segir að umframframboð á áli hafi á fyrstu sjö mánuðum ársins verið 773 þúsund tonn, samanborið við 506 þúsund tonn árið 2012. Til samanburðar er samanlögð framleiðslugeta íslensku álveranna þriggja um 815 þúsund tonn.

Seðlabanki Íslands og viðskiptablaðið Wall Street Journal birtu nýverið hvort sína spána um þróun álverðs. Þar er í báðum tilvikum því spáð að álverð eigi eftir að hækka á næsta ári. Wall Street Journal spáir einnig að eftirspurn eftir málminum eigi eftir að aukast.

„Í síðustu spá CRU, sem er helsti greiningaraðilinn í áliðnaðinum, er spáð hóflegum verðhækkunum á áli á tímabilinu 2013 til 2017,“ segir Pétur Blöndal, framkvæmdastjóri Samáls – Samtaka álframleiðenda á Íslandi.

„Það kemur einnig fram í spá CRU að það verði umframeftirspurn eftir áli í heiminum, að Kína frátöldu, sem þýðir að álbirgðir munu minnka. Kína hefur ekki verið að flytja út til annarra landa sem neinu nemur og ekki er útlit fyrir að það sé að breytast. Hins vegar eru ýmsir þættir sem halda aftur af verðhækkunum og því er spurning hversu verulegar þessar hækkanir verða,“ segir Pétur.

Lágt álverð hefur skiljanlega áhrif á rekstur íslensku álveranna. Tvö þeirra, álver Rio Tinto Alcan í Straumsvík og álver Norðuráls á Grundartanga, standa nú bæði í kostnaðarsömum fjárfestingarverkefnum.

Álverið í Straumsvík vinnur nú að því að auka framleiðslugetu sína úr 190 þúsund tonnum í 205 þúsund tonn. Norðurál hóf nýverið fimm ára fjárfestingarverkefni þar sem markmiðið er meðal annars að auka framleiðslugetu álversins um allt að fimmtíu þúsund tonn af áli á ári. Í tilkynningu sem fyrirtækið sendi frá sér í síðustu viku segir að heildarkostnaður við verkefnið verði á annan tug milljarða íslenskra króna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×