Lífið

Íslendingar berjast við Dani

Freyr Bjarnason skrifar
Vilhjálmur Hernandez lofar skemmtilegum bardögum í kvöld.
Vilhjálmur Hernandez lofar skemmtilegum bardögum í kvöld. fréttablaðið/gva
Hnefaleikafélagið ÆSIR og Hnefaleikafélag Akraness standa fyrir opnu hnefaleikamóti í húsnæði Hnefaleikastöðvarinnar að Viðarhöfða 2 í Reykjavík í kvöld.

Þar etja sjö upprennandi hnefaleikakappar frá Danmörku kappi við íslenskt hnefaleikafólk í níu bardögum.

Í danska liðinu er Camilla Skov Jensen sem vann til bronsverðlauna á Evrópumeistaramótinu í Ungverjalandi fyrr á árinu. Hún mætir Valgerði Guðsteinsdóttur, núverandi Íslandsmeistara og hnefaleikakonu ársins 2012.

Vilhjálmur Hernandez hefur unnið mikið uppbyggingarstarf í hnefaleikum á Íslandi um árabil og er það starf farið að skila árangri. Afraksturinn er blómleg sveit hnefaleikafólks, bæði barna, unglinga og fullorðinna.

Hann segir hörkubardaga fram undan í kvöld en að Danirnir verði eigi að síður erfiðir viðureignar, enda hafi hnefaleikar verið bannaðir í fimmtíu ár hér á landi og önnur lönd hafi því gott forskot. „En við erum að koma upp með góða krakka núna og unglingarnir eru búnir að standa sig vel,“ segir hann.

Fyrsti bardagi kvöldsins verður á milli tveggja ellefu ára stráka. Sá íslenski heitir Emin Kadri. „Hann er upprennandi stjarna og það verður gaman að sjá hann spreyta sig á móti danska stráknum.“

Vilhjálmur hvetur fólk til að mæta kl. 20 í kvöld og styðja Íslendinga til sigurs. „Þetta verða mjög skemmtilegir bardagar.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.