Handbolti

Læknar og sjúkraþjálfarar liðsins vilja helst ekki að ég spili

Stefán Árni Pálsson skrifar
Aron Pálmarsson býst við því að vera kominn í gott form eftir fjórar vikur. Leikmaðurinn má aðeins spila í 10-15 mínútur í leik en hefur staðið sig vel á tímabilinu þegar hann er inni á vellinum.
Aron Pálmarsson býst við því að vera kominn í gott form eftir fjórar vikur. Leikmaðurinn má aðeins spila í 10-15 mínútur í leik en hefur staðið sig vel á tímabilinu þegar hann er inni á vellinum. Mynd/NordicPhotos/Getty
„Þetta hefur verið svona upp og ofan hjá mér undanfarnar vikur,“ segir Aron Pálmarsson handknattleiksmaður. Hann hefur ekki enn náð sér að fullu eftir aðgerð á vinstra hné sem hann gekkst undir í vor. Landsliðsmaðurinn hefur komið við sögu í nokkrum leikjum með félagsliði sínu Kiel á tímabilinu en á þó nokkuð langt í land að ná sér að fullu.

„Fyrir þremur vikum mátti ég byrja spila í um 10-15 mínútur í leik, svona rétt á meðan ég er að byggja upp vöðvana í kringum hnéð. Rétt eftir aðgerð var styrkur minn í hnénu lítill sem enginn og magnað hvað maður er fljótur að rýrna. Miðað við styrk minn núna má ég lítið spila og helst bara einu sinni í viku.“

Fyrsti leikur Arons á tímabilinu var gegn Gummersbach 11. september og skoraði leikmaðurinn fjögur mörk. Leikurinn kostaði sitt og töluvert bakslag kom upp í endurhæfingu leikmannsins. Aron missti því af næsta leik Kiel gegn ThSV Eisenach.

Bakslag eftir stórleik

„Eftir að hafa hvílt í einn leik kom ég aðeins við sögu í sóknarleik liðsins gegn Wetzlar,“ sagði Aron sem skoraði eitt mark í þeim leik. Kiel mætti því næst pólska liðinu Wisla Plock í Meistaradeild Evrópu 22. september og þá fór Aron á kostum. Liðið vann magnaðan útisigur, 34-33, en sigurmark leiksins kom nokkrum sekúndum fyrir leikslok. Aron skoraði sex mörk í leiknum og lék stórt hlutverk í sigri þýsku meistaranna.

„Eftir leikinn úti í Póllandi þar sem ég var inni á vellinum í einhverjar 50 mínútur kom aftur ákveðið bakslag. Ég missti því næst af tveimur síðustu leikjum okkar í deildinni og maður er að verða nokkuð þreyttur á þessu og vonandi fer ég að skána fljótlega. Ég er í nokkuð erfiðri stöðu en læknar og sjúkraþjálfarar liðsins vilja helst ekki að ég spili en síðan á móti er alltaf nokkuð mikil pressa á manni að koma til baka.“

Aron gekkst undir aðgerð í vor og missti af síðustu leikjum Kiel í þýsku deildinni á síðasta tímabili. Liðið hafði þá tryggt sér Þýskalandsmeistaratitilinn í handknattleik, auk þess sem liðið varð þýskur bikarmeistari. Það sem hafði verið að plaga Aron fram að aðgerð var brjósk sem þrýsti á ákveðnar vöðvafestingar í hnénu.





Mynd/NordicPhotos/Getty
„Þessi aðgerð var í raun ekki það stór og það átti ekki að taka svona langan tíma fyrir mig að ná mér á ný. Það getur samt verið misjafnt þegar brjósk er fjarlægt hversu lengi maður er að jafna sig, hvort sem það eru átta vikur eða allt upp í 16 vikur. Ég er að æfa núna þrisvar í viku með einkaþjálfara og þá er aðaláherslan lögð á að styrkja vöðvana í kringum hnéð. Ef ég held áfram sömu vinnu og undanfarið ætti ég að vera kominn á gott ról eftir einn mánuð.“

Fyrir tímabilið missti Kiel fjóra gríðarlega sterka leikmenn og mætti liðið með nokkuð breytt lið í mótið í haust. Þeir Thierry Omeyer, Momir Ilic, Daniel Narcisse og Marcus Ahlm hafa allir annaðhvort hætt í handbolta eða farið í önnur lið. Liðið hefur samt sem áður unnið alla sjö leiki sína í deildinni til þessa og verið að spila sérstaklega vel undir stjórn Alfreðs Gíslasonar.

Ekki eins góðir á pappírnum

„Margir segja í raun að liðið hafi farið ótrúlega vel af stað miðað við þá leikmenn sem við misstum og hverjir komu inn í staðinn. Það er ekkert launungarmál að við erum veikari á pappírnum núna en síðustu ár en liðið hefur samt sem áður verið að spila virkilega vel, náði meðal annars í tvö stig gegn Hamburg á útivelli. Við erum enn með frábært lið.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×